Fótbolti

Benítez enn með Sverri á bekknum og það borgaði sig ekki

Sindri Sverrisson skrifar
Sverrir Ingi fær að láta ljós sitt skína í Evrópudeildinni en ekki í grísku úrvalsdeildinni þessa dagana.
Sverrir Ingi fær að láta ljós sitt skína í Evrópudeildinni en ekki í grísku úrvalsdeildinni þessa dagana. Getty/Alex Pantling

Fjórða deildarleikinn í röð varð landsliðsmiðvörðurinn Sverrir Ingi Ingason að gera sér að góðu að sitja á varamannabekk Panathinaikos í dag, í grísku úrvalsdeildinni í fótbolta.

Spænski þjálfarinn Rafa Benítez hefur nýtt krafta Sverris í gríska bikarnum og í Evrópudeildinni en verið með hann á varamannabekknum í síðustu deildarleikjum.

Í dag sat Sverrir á bekknum þegar Panathinaikos varð að sætta sig við aðeins 2-2 jafntefli gegn AEL, næstneðsta liði deildarinnar, og er Panathinaikos nú með 19 stig eftir 12 leiki, í 6. sæti.

Jöfnunarmark AEL kom úr vítaspyrnu seint í uppbótartíma, eftir að vinstri bakvörðurinn Filip Mladenović fékk rauða spjaldið.

Íslendingaliðin í einum hnapp

Panathinaikos er nú þremur stigum á eftir hinum Íslendingaliðunum í deildinni, Levadiakos og Volos, en á leik til góða.

Hörður Björgvin Magnússon lék allan leikinn fyrir Levadiakos í dag í 1-1 jafntefli við Asteras á útivelli. Volos, með Hjört Hermannsson í miðri vörninni, gerði sömuleiðis 1-1 jafntefli við Kifisia, á heimavelli í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×