Sport

41 árs þjálfari lést eftir fall á heimili sínu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Liam Gleason ræðir við leikmenn sína í lacrosse-liði Siena-háskólans.
Liam Gleason ræðir við leikmenn sína í lacrosse-liði Siena-háskólans. Getty/James Franco

Liam Gleason, lacrosse-þjálfari karlaliðs Siena, er látinn. Þetta tilkynnti skólinn á miðvikudag, þremur dögum eftir að hann hlaut alvarlegan heilaskaða við fall á heimili sínu. Hann var aðeins 41 árs gamall.

Gleason leiddi Saints til sigurs í Metro Atlantic Athletic Conference-deildinni og þar með þátttökuréttar í NCAA-mótinu á síðasta tímabili, sem var hans sjöunda hjá skólanum í Loudonville í New York.

„Skyndilegur og tilgangslaus missir veldur sársauka sem er erfitt að skilja,“ sagði Chuck Seifert, rektor Siena-skólans. „Það er erfitt að ímynda sér nokkurn sem var jafn almennt elskaður og dáður og Liam. Samfélag okkar var blessað með lífi þjálfarans Gleasons.“

Gleason lætur eftir sig eiginkonu og þrjú börn og söfnun er hafin til að styðja við fjölskylduna.

Tugir manna, þar á meðal leikmenn Siena í búningum, starfsfólk skólans og meðlimir úr íþróttasamfélagi University at Albany, mynduðu heiðursvörð á sjúkrahúsgangi á miðvikudagseftirmiðdegi til að votta Gleason virðingu sína þegar honum var ekið í skurðaðgerð til að gefa líffæri sín, að sögn talsmanna Siena. Skólinn tilkynnti andlát hans nokkrum klukkustundum síðar.

Gleason var framúrskarandi leikmaður hjá Albany, einum helsta keppinaut Siena, en aðeins nokkrir kílómetrar skilja skólana að. Hann hóf þjálfaraferil sinn sem aðstoðarþjálfari hjá Siena, sneri síðan aftur til Albany sem aðstoðarþjálfari áður en hann varð aðalþjálfari Siena árið 2018.

Útför hans fer fram á laugardag á háskólasvæði Siena, að sögn talsmanna skólans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×