Sport

Blótaði á­horf­anda og bauð honum í slag

Sindri Sverrisson skrifar
Jayson Shaw var reiður út í áhorfanda en lét það ekki koma í veg fyrir öruggan sigur.
Jayson Shaw var reiður út í áhorfanda en lét það ekki koma í veg fyrir öruggan sigur. Skjáskot/@matchroompool

Það átti sér stað ansi skrautlegt atvik í Alexandra Palace í Lundúnum í gærkvöld, þegar keppt var í Mosconi-bikarnum sem er liðakeppni Bandaríkjanna og Evrópu í pool.

Skotinn Jayson Shaw, fyrirliði Evrópuliðsins, brást reiður við hátterni áhorfanda þegar hann var að keppa við Skyler Woodward.

Ekki er ljóst hvað áhorfandinn gerði til að ögra Shaw en Skotanum varð að minnsta kosti heitt í hamsi. Hann kallaði blótsyrði að áhorfandanum og lét hann vita að hann væri alveg til í að fara út fyrir höllina til að útkljá málin, eins og sjá má í myndbandinu hér að neðan.

Shaw vann svo öruggan sigur í viðureigninni og átti sinn þátt í því að Evrópa endaði með 4-0 forskot eftir fyrsta dag mótsins.

Shaw hafði verið kokhraustur fyrir mótið enda Evrópu gengið vel og unnið síðustu fimm skipti, á þessu móti sem svipar til Ryder-bikarsins þekkta í golfi.

„Ég held að þeim takist ekki að stöðva niðursveifluna. Þessir sömu fimm töpuðu með sannfærandi hætti í fyrra svo ég held að við vitum hvað þarf að gera,“ sagði Shaw við Sky Sports fyrir mótið.

„Við spilum okkar leik og tökum frumkvæðið, þá molna þeir niður. Þeir gera það alltaf. Við sjáum það á andlitum þeirra – það er munurinn á okkur og þeim,“ sagði Shaw.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×