Fótbolti

Viktor Bjarki heldur á­fram að slá í gegn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Viktor Bjarki Daðason er að standa sig frábærlega á sínu fyrsta tímabilið með FCK.
Viktor Bjarki Daðason er að standa sig frábærlega á sínu fyrsta tímabilið með FCK. Getty/Kristian Tuxen Ladegaard Berg

FC Kaupmannahöfn er einu skrefi nær undanúrslitunum í danska bikarnum eftir 4-2 sigur á B-deildarliði Esbjerg á útivelli. Íslenski framherjinn Viktor Bjarki Daðason var allt í öllu í kvöld.

Seinni leikur liðanna fer fram á heimavelli FC Kaupmannahafnar í þarnæstu viku. Tveggja marka sigur er gott fararnesti fyrir hann.

Viktor Bjarki hefur heldur betur slegið í gegn á síðustu vikum og í kvöld var hann með tvö mörk og eina stoðsendingu, kom með beinum hætti að þremur af fjórum mörkum síns liðs í bikarsigri.

Viktor Bjarki kom FCK í 1-0 strax á sjöttu mínútu leiksins í kvöld. Markið skoraði hann með hægri fæti af stuttu færi eftir stoðsendingu frá Elias Achouri.

@fc_kobenhavn

Mohamed Elyounoussi kom FCK í 2-0 á 14. mínútu og á 35. mínútu launaði Viktor sendinguna frá Achouri.

Achouri skoraði þá þriðja markið af stuttu færi eftir stoðsendingu frá Viktori

Esbjerg minnkaði muninn á 42. mínútu með marki Muamer Brajanac.

Viktor var ekki hættur og kom FCK í 4-1 á 72. mínútu þegar hann skoraði af stuttu færi eftir hornspyrnu.

Esbjerg minnkaði aftur muninn tveimur mínútum síðar með marki Peter Bjur.

Viktor fékk að klára leikinn til að ná þrenunni en hún datt ekki inn að þessu sinni.

Seinni leikur liðanna fer fram eftir ellefu daga eða 14. desember næstkomandi.

Viktor Bjarki er nú kominn með fimm mörk og tvær stoðsendingar í ellefu leikjum í öllum keppnum á sínu fyrsta tímabili í aðalliði FCK en hann er aðeins sautján ára gamall. 

Í mörgum af þessum leikjum hefur hann aðeins spilað stutt eftir að hafa komið inn á sem varamaður. 

Þetta var annað og þriðja bikarmark hans en hann hefur einnig skorað tvö mörk í Meistaradeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×