Fótbolti

Leið yfir sjónvarpskonu í beinni en Ian Wright greip hana

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ian Wright og Katie Shanahan voru vel vakandi þegar það leið yfir Lauru Woods (til hægri).
Ian Wright og Katie Shanahan voru vel vakandi þegar það leið yfir Lauru Woods (til hægri). Getty/Warren Little/ Nick Potts

Sjónvarpskonan Laura Woods hneig niður í beinni útsendingu frá leik Englands og Gana á St. Mary's-leikvanginum í kvöld en kvennalandslið þjóðanna mættust þá í vináttulandsleik sem endaði með 2-0 sigri Englands.

Laura Woods var í beinni útsendingu á ITV þegar það leið yfir hana. Sérfræðingarnir Ian Wright og Anita Asante brugðust skjótt við og Wright greip hana þegar hún féll fram fyrir sig.

Woods var að stýra umfjöllun stöðvarinnar fyrir leikinn þegar hún virtist falla í yfirlið við hlið vallarins.

Útsendingin fór strax í auglýsingahlé og þegar hún hófst aftur hafði samstarfskona hennar, Katie Shanahan, tekið við.

Shanahan sagði: „Eins og þið hafið sennilega tekið eftir er hin dásamlega Laura Woods ekki með okkur þar sem hún veiktist skyndilega.“

„En hún er í mjög góðum höndum svo ég hleyp í skarðið með stuttum fyrirvara.“

Unnusti Woods, Adam Collard, birti síðar stöðuuppfærslu á X sem hljóðaði svo: „Það er allt í lagi með Lauru og hún er hjá rétta fólkinu. Takk fyrir allar hlýju kveðjurnar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×