Fótbolti

Trump mætir á HM-dráttinn þar sem fyrstu friðarverðlaunin verða af­hent

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vinirnir Gianni Infantino og Donald Trump fara yfir HM-málin í Hvíta húsinu.
Vinirnir Gianni Infantino og Donald Trump fara yfir HM-málin í Hvíta húsinu. Getty/Win McNamee

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, verður viðstaddur þegar dregið verður í riðla fyrir heimsmeistaramótið í Washington á föstudag. Þetta staðfestir Hvíta húsið.

Það verður ekki aðeins dregið í riðla fyrir heimsmeistaramótið því FIFA ætlar einnig að afhenda sérstök Friðarverðlaun FIFA í fyrsta sinn.

Með því að Trumo boði komu sína á dráttinn þá eru orðnar 101 prósent líkur á því að hann sé að fara að fá þessi verðlaun.

Vinur hans, Gianni Infantino, forseti FIFA, mun ekki afhenda öðrum friðarverðlaun fyrir framan nefið á Trump.

„Á föstudag mun Trump forseti taka þátt í drætti fyrir riðla HM í Kennedy Center,“ sagði Karoline Leavitt, fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, við fjölmiðla.

Bandaríkin, Kanada og Mexíkó deila með sér hlutverki gestgjafa fyrir heimsmeistaramótið í fótbolta á næsta ári. Trump hefur gert viðburðinn að mikilvægum þætti bæði í forsetatíð sinni og sem hluta af 250 ára afmælishátíð sjálfstæðis Bandaríkjanna á næsta ári.

Liðin fá að vita í hvaða riðlum þau eru þetta kvöld en vita ekki hvenær leikir þeirra munu fara fram strax.

Daginn eftir riðladráttinn á föstudag verður uppfærð leikjadagskrá fyrir heimsmeistaramótið í fótbolta á næsta ári kynnt. Það gerist í beinni alþjóðlegri sjónvarpsútsendingu á vegum FIFA á laugardagskvöld.

FIFA hefur tilkynnt að þá muni fást fullt yfirlit yfir leikstaði og upphafstíma allra leikja. Það er þegar ljóst að leikir HM munu fara fram á sextán mismunandi leikvöngum í Bandaríkjunum, Kanada og Mexíkó.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×