Enski boltinn

Segir að Wirtz hafi verið plataður til Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Florian Wirtz er ekki að skila mörkum eða stoðsendingum í ensku úrvalsdeildinni í upphafi leiktíðar.
Florian Wirtz er ekki að skila mörkum eða stoðsendingum í ensku úrvalsdeildinni í upphafi leiktíðar. Getty/ Shaun Brooks

Uli Höness, heiðursforseti Bayern München, telur að þýski landsliðsmaðurinn Florian Wirtz hafi verið fenginn til Liverpool á fölskum forsendum.

Þjóðverjinn hefur átt erfiða byrjun hjá Englandsmeisturum síðasta tímabils og hinn valdamikli Höness gefur meira en í skyn að hann hafi verið „plataður“ til félagsins af Arne Slot, knattspyrnustjóra Liverpool.

Bayern München var sjálft á höttunum eftir Wirtz, en á endanum fór leikstjórnandi Leverkusen til Englands í þáverandi metsölu.

Wirtz hefur enn ekki skorað fyrir Liverpool en átti einn sinn besta leik í sigri á West Ham um helgina.

„Mér finnst þetta ofboðslega leiðinlegt fyrir hans hönd,“ sagði Uli Höness og fylgdi því eftir með hvössum ummælum í garð Slot á íþróttaráðstefnu í München á mánudag.

„Svo virðist sem Slot hafi lofað honum einhverju sem hann er augljóslega ekki að standa við. Slot lofaði að Wirtz fengi treyju númer tíu og hann fullvissaði Wirtz einnig um að liðið yrði byggt í kringum hann,“ segir Hoeness.

Þetta kallar Höness algjört bull.

„Staðreyndin er sú að Wirtz er í treyju númer sjö og liðið spilar alls staðar nema í kringum Florian Wirtz,“ segir Höness.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×