Enski boltinn

Arsenal minnti á Víking: „Ég elska svona mörk“

Sindri Sverrisson skrifar
Mikel Merino fagnar jöfnunarmarkinu gegn Chelsea í gær.
Mikel Merino fagnar jöfnunarmarkinu gegn Chelsea í gær. Getty/Stuart MacFarlane

Arnar Gunnlaugsson, landsliðsþjálfari og fyrrverandi þjálfari Íslandsmeistara Víkings í fótbolta, segir Arsenal hafa skorað „dæmigert Víkingsmark“ þegar Mikel Merino jafnaði metin gegn Chelsea í stórleik ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta í gær.

„Ég elska þetta mark,“ sagði Arnar áður en hann hóf að greina það í Sunnudagsmessunni á Sýn Sport í gær.

Klippa: Sunnudagsmessan - Arnar fer yfir mark Arsenal

Markið skoraði Merino eftir að Trevoh Chalobah hafði komið tíu Chelsea-mönnum yfir í upphafi seinni hálfleiks. Chelsea var manni færra eftir rauða spjaldið sem Moises Caicedo fékk á 38. mínútu.

„Það eina sem Saka þarf að gera…“

Það var Bukayo Saka sem átti sendinguna á Merino sem skallaði í netið:

„Allir eru að horfa á Saka og hvað er að gerast þegar hann er með boltann en ég er að horfa á það sem gerist á fjærstönginni, þar sem þeir mynda mikla yfirtölu. Við sjáum strax 3 á móti 2, og 4 á móti 3,“ sagði Arnar yfir stillimynd af því hvernig sókn Arsenal leit út.

„Það eina sem Saka þarf að gera… Hann á samt í höggi við Cucurella sem er besti varnarbakvörður í heiminum… En hann þarf að koma boltanum yfir fyrsta mann og þá eru þeir 2 á móti 1. Arsenal bjó þetta til og þetta var dæmigert mark fyrir City þegar Arteta var þar að læra af Guardiola. Dæmigert Víkingsmark líka.

Ég elska svona mörk. Þeir eiga ekki séns á að verjast þessu. Eini möguleikinn er að fá kantmanninn neðar, hægri kantmann Chelsea, til að hjálpa til en annars er ógeðslega erfitt að verjast svona yfirtölu á fjærsvæðinu,“ sagði Arnar eins og sjá má hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×