Fótbolti

Stuðnings­maður settur í 35 leikja bann og skyldaður á nám­skeið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stuðningsmenn norska félagsins Viking á góðri stundu en myndin tengist ekki fréttinni beint. 
Stuðningsmenn norska félagsins Viking á góðri stundu en myndin tengist ekki fréttinni beint.  Getty/Ingo Wagner

Norska fótboltafélagið Viking tekur mjög hart á framkomu stuðningsmanns liðsins í leik í norsku úrvalsdeildinni á dögunum.

Um er að ræða áhorfanda sem lét særandi ummæli falla úr stúku gestaliðsins á Marienlyst-leikvanginum í garð Marcus Mehnert, leikmanns Strømsgodset.

„Undanfarnar vikur hefur Viking Fotball gert umfangsmiklar rannsóknir og hefur borið kennsl á einn einstakling sem mun sæta viðurlögum í samræmi við viðbragðsreglur félagsins,“ skrifar félagið á miðla sína.

Viðkomandi stuðningsmaður hefur hér með verið útilokaður frá 35 leikjum og þarf auk þess að gangast undir viðhorfsbreytinganámskeið áður en hann fær hugsanlega aftur aðgang að leikjum félagsins.

Mehnert brást sjálfur illa við atvikinu í umræddum leik.

„Það er allt í lagi að Viking séu góðir og að stuðningsmennirnir séu stoltir af því, en þeir geta sleppt því að kalla fólk homma,“ sagði Marcus Mehnert við TV2.

Leikmaður Godset fékk ummælin yfir sig þegar hann var niðri við endalínuna að drekka vatn.

Viking hrósar Marcus Mehnert fyrir að hafa látið vita af atvikinu.

„Aðeins þannig getum við beint athyglinni að svo mikilvægu máli í norskum fótbolta,“ skrifar félagið á miðla sína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×