Fótbolti

Sæ­dís og Arna norskir bikar­meistarar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sædís Rún Heiðarsdóttir hefur unnið þrjá stóra titla á fyrstu tveimur árum sínum í atvinnumennsku með Vålerenga í Noregi.
Sædís Rún Heiðarsdóttir hefur unnið þrjá stóra titla á fyrstu tveimur árum sínum í atvinnumennsku með Vålerenga í Noregi. Getty/Pat Elmont

Íslensku landsliðskonurnar Sædís Rún Heiðarsdóttir og Arna Eiríksdóttir urðu í dag norskir bikarmeistarar með liði sínu Vålerenga.

Vålerenga vann 2-0 sigur á Rosenborg í úrslitaleiknum á Ullevaal-leikvanginum í Osló.

Sædís Rún varð þarna að verða bikarmeistari annað árið í röð með Vålerenga en þetta er fyrsti titill Örnu sem kom til liðsins í haust.

Arna var að spila sinn annan bikarúrslitaleik á nokkrum mánuðum en hún tapaði með FH í íslenska bikarúrslitaleiknum í ágúst.

Vålerenga varð í öðru sæti í norsku deildinni eftir að hafa unnið tvöfalt í fyrra en endaði tímabilið á því að landa öðrum stórum titli.

Linn Vickius kom Vålerenga í 1-0 á 17. mínútu með skoti úr teignum eftir flottan undirbúning frá Karinu Sævik.

Sævik lagði líka upp annað markið sem reynsluboltinn Olaug Tvedten skoraði með laglegri vippu yfir markvörðinn á 36. mínútu.

Arna spilaði allan leikinn en Sædís Rún fór af velli í hálfleik eftir að hafa fengið gult spjald fyrir brot í lok fyrri hálfleiksins.

Vålerenga var að vinna sinn fjórða bikarúrslitaleik í sögunni en þeir hafa allir komið í hús frá og með árinu 2020.

Undir lokin kom Elise Thorsnes inn á sem varamaður hjá Vålerenga og tók við fyrirliðabandinu. Hún var að spila síðasta leikinn á glæsilegum ferli sínum. Thorsnes hefur unnið norska bikarinn átta sinnum og með fimm mismunandi félögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×