Fótbolti

Kallaði bestu knattspyrnukonu landsins feita og fær nú lengra bann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Marta Cox er besti leikmaður kvennalandsliðs Panama en forseti sambandsins var ósáttur með það að hún gagnrýndi aðbúnað landsliðsins.
Marta Cox er besti leikmaður kvennalandsliðs Panama en forseti sambandsins var ósáttur með það að hún gagnrýndi aðbúnað landsliðsins. Getty/Sean M. Haffey

Þetta ættu að vera frábærir dagar fyrir forseta knattspyrnusambands Panama en svo er nú ekki raunin og hann getur engum kennt um nema sjálfum sér.

Aðeins nokkrum dögum eftir að Panama tryggði sér sæti á heimsmeistaramóti karla 2026 dæmdi Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, forseta sambandsins í lengra bann fyrir að virða ekki fyrra bann sem var sett á hann fyrir að beita stjörnu kvennalandsliðsins fituskömmun.

FIFA sagði að Manuel Arias væri í banni frá allri starfsemi tengdri fótbolta í sex mánuði, bann sem rennur út um fjórum vikum áður en heimsmeistaramótið hefst í Bandaríkjunum, Mexíkó og Kanada næsta sumar.

Arias er þar með meinað að vera viðstaddur dráttinn fyrir heimsmeistaramótið þann 5. desember en dregið verður í Washington, D.C. í Bandaríkjunum.

FIFA sagði að agadómarar sambandsins hefðu einnig lagt 25 þúsund Bandaríkjadala sekt á embættismanninn frá Panama fyrir að fara ekki að fyrri úrskurði siðanefndar sambandsins sem setti hann í sex mánaða bann fram í júlí. Engar nánari upplýsingar voru gefnar um hvernig hann braut bannið.

Arias gaf í skyn að Marta Cox væri „feit“ eftir að hún gagnrýndi aðbúnað landsliðsins, sem komst á heimsmeistaramót kvenna 2023. Cox er fyrirliði og einn allra besti leikmaður kvennalandsliðsins og hefur skorað 26 mörk í 63 landsleikjum.

Arias viðurkenndi síðan að þetta hafi verið óheppileg ummæli í mars 2024 en slapp þó ekki undan banni FIFA.

Á meðan á fyrra sex mánaða banni hans stóð hefði Arias átt að vera fjarverandi á tveimur undankeppnisleikjum fyrir heimsmeistaramótið í júní og á Gullbikarnum í Bandaríkjunum sem stóð fram í júlí.

Arias getur áfrýjað nýjustu viðurlögum FIFA.

Panama tryggði sér sæti á heimsmeistaramóti karla með því að sigra El Salvador 3-0 á þriðjudag á meðan Súrínam, sem áður leiddi riðilinn, tapaði 3-1 í Gvatemala.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×