Enski boltinn

Dómanefndin ó­sam­mála um „ekki mark“ Liverpool gegn Man City

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Skalli Virgil van Dijk á leiðinni fram hjá Gianluigi Donnarumma og í mark Manchester City en þarna sést vel að Andrew Robertson beygði sig fyrir framan hann en var aldrei í sjónlínu markvarðarins.
Skalli Virgil van Dijk á leiðinni fram hjá Gianluigi Donnarumma og í mark Manchester City en þarna sést vel að Andrew Robertson beygði sig fyrir framan hann en var aldrei í sjónlínu markvarðarins. Getty/Michael Regan

Liverpool-menn héldu að þeir höfðu jafnað metin í stórleiknum á móti Manchester City í ensku úrvalsdeildinni og komið sér með því inn í leikinn. Markið var hins vegar dæmt af en sérfræðingar og aðrir hafa síðan rifist um niðurstöðuna og það ósætti nær alla leið inn á borð dómaranefndar ensku úrvalsdeildarinnar.

Liverpool tapaði leiknum á endanum 3-0 og er að missa af lestinni í baráttunni um enska meistaratitilinn.

Mark Virgil van Dijk hefði breytt miklu en enginn veit hvort að markið hefði kveikt eitthvað á Liverpool-liðinu sem átti slakan dag.

Andrew Robertson var dæmdur rangstæður fyrir að beygja sig undir skalla Virgil van Dijk. Sérfræðinefnd hefur úrskurðað að myndbandsdómgæsla hafi réttilega ekki hnekkt ákvörðun um umdeilt ógilt mark Liverpool.

Hins vegar var dómanefnd ensku úrvalsdeildarinnar um lykilatvik í leikjum (KMI), sem fer yfir stórar dómgæsluákvarðanir í hverri viku, klofin í afstöðu sinni. KMI-dómanefndin samanstendur af þremur fyrrverandi leikmönnum og einum fulltrúa frá ensku úrvalsdeildinni og einum frá PGMO. Breska ríkisútvarpið segir frá.

Þrjú atkvæði gegn tveimur

Fimm manna nefndin kaus með þremur atkvæðum gegn tveimur að ákvörðun vallardómara um að ógilda markið hefði verið röng, en komst einnig að þeirri niðurstöðu að VAR hefði haft rétt fyrir sér að grípa ekki inn í.

Dómarinn Chris Kavanagh og aðstoðardómari hans, Stuart Burt, ógiltu markið og töldu að Andy Robertson hefði verið rangstæður með því að beygja sig undir boltann á leið hans í markið.

Ákvörðunin, sem byggðist á því að augljósar aðgerðir Robertsons hefðu getað haft áhrif á markvörðinn Gianluigi Donnarumma, var studd af VAR-teyminu, Michael Oliver og Tim Wood.

Liverpool hafði samband við samtök dómara í atvinnumannaleikjum (PGMO) til að koma á framfæri áhyggjum sínum, þar sem þeir töldu að viðeigandi skilyrðum fyrir rangstöðu hefði ekki verið fullnægt.

Robertson var ekki í sjónlínu

Í áliti KMI-nefndarinnar kom fram að meirihluti nefndarinnar „taldi að þar sem Robertson var ekki í sjónlínu markvarðarins þegar skallinn var tekinn, og aðgerðir hans í kjölfarið höfðu ekki greinileg áhrif á tilraun Donnarumma til að verja boltann, hefði markið átt að standa“.

Hins vegar, á meðan tveir af fimm nefndarmönnum „töldu þetta því vera augljós og afgerandi mistök“, taldi einn nefndarmaður „að hreyfingin fyrir framan markvörðinn þýddi að þetta væru ekki augljós og afgerandi mistök, og að VAR hefði haft rétt fyrir sér að grípa ekki inn í“.

„Þetta leiddi til klofinnar, en réttrar, niðurstöðu eftir VAR-skoðun. Hinir tveir nefndarmennirnir töldu að augljósar aðgerðir Robertsons fyrir framan markvörðinn hefðu haft áhrif á tilraun Donnarumma til að verja og studdu því ákvörðun vallardómara um rangstöðu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×