Fótbolti

Mikael ekki með í leikjunum mikil­vægu og Logi er lasinn

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Mikael Neville Anderson verður ekki með en vonast er til að Logi Tómasson geti spilað.
Mikael Neville Anderson verður ekki með en vonast er til að Logi Tómasson geti spilað. vísir

Mikael Neville Anderson verður ekki með íslenska landsliðinu í leikjunum gegn Aserbaísjan á morgun og Úkraínu á sunnudag. Logi Tómasson hefur verið að glíma við veikindi en vonir eru bundnar við að hann verði klár í slaginn á morgun.

Landsliðsþjálfarinn Arnar Gunnlaugsson greindi frá þessu á blaðamannafundi í hádeginu.

Hann sagði Mikael Neville ekki hafa komið til móts við hópinn í Aserbaísjan, hann hafi orðið eftir í Svíþjóð, þar sem hann spilar með liði Djurgarden, og mun gangast undir frekari rannsóknir á meiðslunum þar í landi.

„Við ákvaðum að skilja hann eftir í Svíþjóð svo hann gæti farið í MRI myndatöku, við vildum gefa honum allan séns til að ná þessum mikilvægu leikjum en því miður fengum við þær fréttir áðan að hann sé ekki í standi til að koma til móts við okkur.“

Arnar sagði líklegt að leikmaður yrði tekinn inn í hópinn í stað Mikaels, en það yrði ekki gert fyrr en eftir leikinn gegn Aserbaísjan á morgun. Þá kemur auðvitað líka í ljós hvort einhverjir aðrir leikmenn forfallist og fleiri breytingar þurfi að gera. 

Arnar sagði einnig frá því að vinstri bakvörðurinn Logi Tómasson hefði verið að glíma við veikindi.

„Logi er búinn að vera smá lasinn, en ætti að vera klár á morgun“ sagði landsliðsþjálfarinn.

Teymi Sýnar mun fylgja okkar mönnum eftir hvert fótmál fram að leiknum gegn Aserbaísjan, sem hefst klukkan 17:00 á morgun, sýndur beint í opinni dagskrá, á Sýn Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×