Enski boltinn

„Ráðafólk fót­boltans verður að hlusta á á­hyggjur kvenna“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þýska landsliðskonan Giulia Gwinn meiddist á hné á Evrópumótinu í Sviss síðasta sumar.
Þýska landsliðskonan Giulia Gwinn meiddist á hné á Evrópumótinu í Sviss síðasta sumar. Getty/Sebastian Christoph Gollnow

Keira Walsh, lykilmaður Evrópumeistaraliðs Englendinga, segir að stjórnendur fótboltans verði að hlusta á leikmennina varðandi áhyggjur út af krossbandameiðslum.

Katie Reid varnarmaður Arsenal var sú síðasta til að slíta krossband af konum í fremstu röð fótboltans.

Hin nítján ára gamla Reid sleit fremra krossband á æfingu í síðustu viku. Hún er sjöundi leikmaðurinn, þar á meðal Michelle Agyemang, framherji enska landsliðsins, sem verður fyrir krossbandameiðslum frá því að tímabilið í ensku úrvalsdeild kvenna hófst.

Hlusta á þá sem ganga í gegnum þetta

„Stundum spilum við kannski of marga leiki í þéttri leikjadagskrá. Það er ekki nægur tími til að jafna sig,“ sagði Walsh, sem er leikmaður Chelsea.

„Það er hægt að gera rannsóknir, en á endanum þarf að hlusta á þá sem eru að ganga í gegnum þetta og hvernig við getum best fundið lausnirnar. Ráðafólk fótboltans verður að hlusta á áhyggjur kvenna,“ sagði Walsh.

Arsenal, sem vann Meistaradeildina á síðasta tímabili, spilaði 58 leiki í öllum keppnum, samanborið við 52 leiki tímabilið á undan. Alessia Russo og Beth Mead spiluðu sex leiki til viðbótar þegar England vann EM 2025 í Sviss.

Rannsóknir benda til þess að leikmenn kvenna séu tvisvar til sex sinnum líklegri til að verða fyrir krossbandameiðslum en karlar.

Þetta er erfitt

„Stundum hafa leikmenn áhyggjur af þessu. Þetta er erfitt. Maður vill samt spila þessa leiki. Maður vill spila viku eftir viku og á stóru stundunum,“ sagði Walsh.

„En stundum þarf fólk ofar í kerfinu að hlusta á það sem við leikmennirnir erum að segja,“ sagði Walsh.

WSL Football skipuleggur leiki í ensku úrvalsdeild kvenna, UEFA ber ábyrgð á Meistaradeild kvenna og Evrópumótinu og FIFA hefur yfirumsjón með heimsmeistaramótinu.

Líka vandamál hjá körlunum

Þétt leikjadagskrá er einnig vandamál í knattspyrnu karla.

Rodri, miðjumaður Manchester City, sagði í september síðastliðnum – skömmu áður en hann varð fyrir krossbandameiðslum sem bundu enda á tímabilið hjá honum – að leikmenn væru nálægt því að fara í verkfall til að mótmæla.

Seinna í sama mánuði lýsti Jurrien Timber, varnarmaður Arsenal, leikjadagskránni sem „hættulegri“ og sagði hana vera „stórt umræðuefni“ í búningsklefanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×