Fótbolti

Setja rúma fjóra milljarða í það að losa fót­bolta­velli við allt gúmmikurlið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lise Klaveness, forseti norska knattspyrnusambandsins, kynnir hér Umhverfissjóð fótboltans.
Lise Klaveness, forseti norska knattspyrnusambandsins, kynnir hér Umhverfissjóð fótboltans. Getty/Michael Macor/fotboll.no

Norðmenn ætla að losna við allt gúmmikurl úr gervigrasvöllum landsins og hafa þess vegna stofnað Umhverfissjóð fótboltans.

Norska knattspyrnusambandið stofnaði sjóðinn í samvinnu við umhverfissjóð norsku þjóðarinnar, Handelens Miljøfond, og var hann kynntur í gær.

Norðmenn hafa eins og fleiri þjóðir haft miklar áhyggjur af skaðsemi gúmmikurlsins í gervigrasvöllum sínum og allt fór á fullt eftir að fjöldi leikmanna féll á lyfjaprófi eftir leik í gervigrashöll Lilleström í sumar. Eftir það var bannað að spila í höllinni.

Norðmenn eru með mjög marga gervigrasvelli og það undirlag er í meirihluta hjá félögum í norskum fótbolta.

Stærsti hluti fjármunanna í hinum nýstofnaða umhverfissjóði kemur frá norska umhverfissjóðnum sem hefur lagt til samtals 340 milljónir norskra króna á næstu fjórum árum til að draga úr gríðarlegri losun gúmmikurls frá norskum gervigrasvöllum. Það gerir rúma fjóra milljarða íslenskra króna.

Norska knattspyrnusambandið og loftslags- og umhverfisráðuneytið leggja auk þess til fimm milljónir norskra króna hvort eða tæpar 63 milljónir íslenskra króna.

Bann Evrópusambandsins (ESB) við örplasti, sem þýðir endalok notkunar á gúmmíkurli í gervigrasvöllum, tekur gildi í október 2031.

Samkvæmt mati Samfunnsøkonomisk Analyse er heildarkostnaðurinn við að leysa gervigraskrísuna áætlaður sjö milljarðar norskra króna á næstu tólf árum eða tæpir 88 milljarðar íslenskra króna.

Gúmmíkurl er talið vera næststærsta uppspretta örplastmengunar í Noregi. Það veldur því að heil tólf hundruð tonn af plasti enda í náttúrunni á hverju ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×