Áskorun

50+: Fram­hjá­höldum fjölgar

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Rannsóknir víðs vegar í heiminum benda til þess að framhjáhöldum fari fjölgandi hjá fólki sem er 50+. En gæti það þá verið tilefni fyrir hjón til að opna umræðuna og ræða málin? Mikilvægt er þó að taka samtalið án sleggjudóma.
Rannsóknir víðs vegar í heiminum benda til þess að framhjáhöldum fari fjölgandi hjá fólki sem er 50+. En gæti það þá verið tilefni fyrir hjón til að opna umræðuna og ræða málin? Mikilvægt er þó að taka samtalið án sleggjudóma. Vísir/Getty

Ýmsar vísbendingar eru um að fólk sem er fimmtugt eða eldra, haldi framhjá oftar eða í meira mæli en áður. 

Í nýlegri belgískri könnun játar um helmingur Belga að hafa annað hvort verið ótrú maka sínum eða að hafa upplifað framhjáhald af hálfu maka síns. Í Bandaríkjunum sýna niðurstöður könnunar Institute for Family Studies að framhjáhald hjóna eftir fimmtugt hefur fjölgað frá 10% í 20% síðasta áratug. Í Frakklandi sýnir könnun að fjórfalt fleiri konur halda framhjá mökum sínum nú en áður, en sú könnun náði til kvenna sem eru 55 ára eða eldri.

Ekki er ólíklegt að þróunin gæti verið sambærileg á Íslandi og ef svo er, má velta fyrir sér: Hvers vegna er framhjáhöldum fólks eftir fimmtugt að fjölga?

Í grein belgíska tímaritsins Fifty & Me eru ýmiss atriði nefnd sem áhrifavaldar. Til dæmis það að börnin eru farin að heiman, fólk upplifir líkamlegar breytingar eftir fimmtugt og eftirlaunaaldurinn er að nálgast eða er hafinn.

Margt fólk kannast líka við að fara í ákveðna sjálfsskoðun um og eftir fimmtugt. Sem getur birst í nýjum löngunum fyrir alls konar. Til dæmis löngun í ný áhugamál, nýjan starfsvettvang eða löngun til þess að endurnýja eitthvað sem hefur dalað eða dottið upp fyrir. Ást- og kynlíf mögulega þar með talið.

Þá upplifir sumt fólk að mýkt og nánd í sambandinu hafi breyst í einfalt sambýli. Þar sem samskipti hafa dofnað, innilegheit horfið og tómarúm myndast. Sérstaklega tilfinningalega. 

Með tilliti til þess að nú lifir fólk lengur, er hraust og virkt mun lengur en áður og svo framvegis, er almennt talað um að 50+ aldurinn sé tími til að njóta. 

Sem á þá við aukna þörf hjá bæði konum og körlum. Þetta þýðir þá einnig að það að tengja miðaldrakreppu við eitthvað fyrirbæri sem á meira við um karla en konur, á ekki lengur við. Því rannsóknir sýna að frá 45-50 ára, eru konur að sýna skýr merki um að vilja viðurkenningu, samkennd og frelsi til að njóta. Og það án þess að lífið snúist að mestu um aðra.

En hvað þýðir þetta allt saman og hver er þá staðan?

Það þarf ekkert að ræða það hér, hversu alvarlegar afleiðingar framhjáhalds geta verið. Það sem niðurstöður fyrrgreindra rannsókna geta hins vegar gefið hjónum tækifæri til að gera, er að opna samtalið um framtíðina og hjónabandið.

Að spyrja sjálfan sig réttu spurninganna er galdurinn í þessu. Hvað langar mig og hvernig sé ég fyrir mér framtíðina, ást- og samlíf þar með talið? 

Lykillinn í samtali hjóna er að geta rætt málin án sleggjudóma eða gagnrýni. Oft hjálpar að leita til fagaðila og að gefnu tilefni er hér bent á að það er löngu liðin tíð að fólk leiti aðeins til fagaðila þegar í óefni er komið. Þvert á móti getur pararáðgjöf snúist um að gera gott betra.

Loks má benda á áðurbirt viðtal við Írisi Eik Ólafsdóttur, framkvæmdastjóra og eiganda fjölskyldu- og sálfræðiþjónustunnar Samskiptastöðin. Þar sem meðal annars kemur fram að ef ekkert er að gert, getur staðan endað með því að eftir margra áratuga hjónaband hættir fólk einfaldlega að þola maka sinn.

Og hver vill enda í þeirri stöðu?


Tengdar fréttir

50+: Hræðslan við að eldast útlitslega og góð ráð

Sitt sýnist hverjum um hvað fagurt er og með sanni má segja í dag að viðmiðin geta verið harla ólík. Ekki síst þegar kemur að því hvernig fólk eldist. Þar sem sumum finnst eftirsóknarvert að eldast náttúrulega á meðan aðrir velja ýmsar fegrunaraðgerðir og fleiri leiðir til að viðhalda unglegu útliti sem lengst.

50+: Grái fiðringurinn hjá kallinum ekkert endilega vesen

Við erum flest með ákveðna ímynd af karlmönnum með gráa fiðringinn. Sjáum þá oft fyrir okkur rembast við að reyna að halda sér mjög ungæðislegum. Stunda jafnvel ræktina af offorsi eða byrja á nýrri hreyfingu og útivist; Með stæl.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.