Fótbolti

„Rokk og ról“ hjá Frey í villta vestrinu

Valur Páll Eiríksson skrifar
Freyr Alexandersson sáttur eftir 3-0 sigurinn gegn Rangers í gærkvöld.
Freyr Alexandersson sáttur eftir 3-0 sigurinn gegn Rangers í gærkvöld. Getty/Craig Foy

Freyr Alexandersson býst við fjörlegum leik þegar Brann mætir Bologna í Evrópudeildinni í fótbolta á Ítalíu annað kvöld.

Freyr er þjálfari Brann og vel hefur gengið hjá liðinu í Evrópudeildinni. Það þurfti að þola naumt 2-1 tap fyrir Lille í Frakklandi í fyrsta leik þar sem Olivier Giroud tryggði Lille sigurinn.

Eftir það vannst 1-0 sigur á Utrecht þökk sé marki Sævars Atla Magnússonar og því var fylgt eftir með frábærum 3-0 sigri á Rangers í Bergen.

Brann verður þó án Sævars Atla það sem eftir lifir þessa árs en búast má við að Eggert Aron Guðmundsson taki þátt í leik morgundagsins.

Bologna er næsti andstæðingur Brann en liðin eigast við á Ítalíu klukkan 20:00 á morgun. Bologna er undir stjórn Vincenzo Italiano sem aðhyllist sóknarbolta.

„Þessi leikur gæti orðið eins og villta vestrið,“ segir Freyr í aðdraganda leiksins.

„Í Noregi er erfitt að finna eins sóknarsinnað lið og Bologna. Við munum reyna að nálgast leikinn ekki of varfærnislega og hafa frekar „rokk og ról“ nálgun,“ segir Freyr.

Leikur Brann og Bologna hefst klukkan 20:00 annað kvöld og verður sýndur beint á Sýn Sport Viaplay.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×