Enski boltinn

Eig­andi For­est býður fram að­stoð eftir stunguárásina

Sindri Sverrisson skrifar
Evangelos Marinakis er eigandi Nottingham Forest. Stuðningsmenn liðsins voru í lest á leið til London þegar ráðist var á farþega með hníf.
Evangelos Marinakis er eigandi Nottingham Forest. Stuðningsmenn liðsins voru í lest á leið til London þegar ráðist var á farþega með hníf. Samsett/Getty

Evangelos Marinakis, eigandi enska knattspyrnufélagsins Nottingham Forest, var fljótur til að bjóða fram aðstoð fyrir fórnarlömb hnífstunguárásarinnar í lest á leið frá Doncaster til London á laugardagskvöld.

Samkvæmt tilkynningu frá Forest voru margir stuðningsmanna Forest, búsettir í London, á leið heim eftir 2-2 jafnteflið við Manchester United þegar árásin var gerð.

Ellefu manns voru flutt á sjúkrahús eftir árásina og samkvæmt frétt BBC í morgun er ástands eins þeirra, lestarstarfsmanns, enn lífshættulegt en stöðugt.

„Allir hjá Nottingham Forest eru í áfalli og afar sorgmæddir yfir því sem gerðist,“ sagði Marinakis í tilkynningu Forest, þar sem hann bauð meðal annars fram fjárhagsaðstoð.

„Hugrekkið og fórnfýsin sem stuðningsmenn okkar sýndu í lestinni er til vitnis um það besta í mannkyninu og það besta í samfélagi félagsins okkar.

Við munum tryggja að allir stuðningsmenn sem lentu í þessu atviki fái allan þann fjárhagslega stuðning sem þeir þurfa til að fá bestu mögulegu læknishjálp á meðan þeir ná sér.

Hugur okkar og bænir eru hjá öllum þeim sem urðu fyrir áhrifum af þessu,“ sagði Marinakis.

Tveir Bretar á fertugsaldri voru handteknir eftir árásina en öðrum þeirra var síðar sleppt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×