Fótbolti

Diljá norskur meistari með Brann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það var gaman hjá Diljá Ýr Zomers og félögum í dag þegar þær tryggðu sér norska meistaratitilinn.
Það var gaman hjá Diljá Ýr Zomers og félögum í dag þegar þær tryggðu sér norska meistaratitilinn. Getty/Karl Bridgeman

Íslenska landsliðskonan Diljá Ýr Zomers og liðsfélagar hennar í Brann tryggðu sér í dag norska meistaratitilinn.

Brann vann 2-1 sigur á Rosenborg á heimavelli sínum í Bergen.

Brann er þar með komið með 68 stig, tíu stigum meira en Vålerenga þegar aðeins níu stig eru eftir í pottinum fyrir Sædísi Rún Heiðarsdóttur og félaga í Vålerenga.

Brann fór langt með því að tryggja sér titilinn með því að vinna Vålerenga 4-2 í síðasta mánuði en Brann hefur nú unnið þrettán deildarleiki í röð.

Diljá er að verða landsliðsmeistari í annað sinn á þessu almanaksári því hún vann belgíska titilinn í vor með Oud-Heverlee Leuven en missti reyndar af stórum hluta tímabilsins vegna meiðsla.

Diljá var á varamannabekknum hjá Brann í dag og kom ekki við sögu. Mörk liðsins skoruðu þær Signe Gaupset á 22. mínútu og Nea Lehtola á 47. mínútu. Markið hjá Gaupset var frábært mark eftir einleik frá eigin vallarhelmingi en þetta var hennar fimmtánda mark á tímabilinu.

Ine Strömstad Berre minnkaði muninn fyrir gestina í lokin og setti smá spennu í lokamínútur leiksins.

Diljá er með eitt mark og tvær stoðsendingar í ellefu deildarleikjum með Brann. Hún er líka með eitt mark í bikarnum eftir að hafa komið til liðsins eftir Evrópumótið í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×