Veður

Frost komst í fjór­tán stig í nótt

Atli Ísleifsson skrifar
Hiti verður yfirleitt núll til sex stig þegar kemur fram á daginn, en frystir aftur í kvöld.
Hiti verður yfirleitt núll til sex stig þegar kemur fram á daginn, en frystir aftur í kvöld. Vísir/Vilhelm

Það var hægur vindur og kalt á landinu í nótt og komst frost í þrettán til fjórtán stig á nokkrum stöðvum norðaustanlands.

Á vef Veðurstofunnar segir að smálægð muni ganga suðaustur yfir landið í dag og verður áttin því breytileg, gola eða kaldi og lítilsháttar rigning eða snjókoma í flestum landshlutum.

Seinnipartinn snýst vindur til norðlægrar áttar með dálitlum éljum, en léttir til á Suðvestur- og Vesturlandi.

Hiti yfirleitt 0 til 6 stig þegar kemur fram á daginn, en frystir aftur í kvöld.

Hæglætisveður á morgun og stöku él austast, annars þurrt. Hiti um eða undir frostmarki, en mildara syðst. Síðdegis nálgast næsta lægð úr suðvestri. Annað kvöld er búist við ákveðinni austan- og suðaustanátt með snjókomu víða, en rigningu eða slyddu suðvestanlands.

Lægðin fer síðan austur fyrir sunnan land og á mánudag snýst í norðaustanátt með éljum.

Spákort fyrir klukkan 14.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á laugardag (fyrsti vetrardagur): Breytileg átt 3-8 m/s og bjart með köflum, en stöku él austast. Hiti um eða undir frostmarki. Gengur í suðaustan 5-13 suðvestantil um kvöldið með snjókomu eða rigningu.

Á sunnudag: Austan og norðaustan 3-10, en heldur hvassara syðst. Víða él og vægt frost, en slydda eða rigning sunnanlands framan af degi.

Á mánudag: Austlæg átt og líkur á éljum, en úrkomulítið norðan heiða. Frost yfirleitt 0 til 5 stig, kaldast í innsveitum norðaustanlands, en frostlaust syðst á landinu.

Á þriðjudag og miðvikudag: Norðaustanátt og dálítil él norðan- og austanlands, annars skýjað með köflum og þurrt. Áfram kalt í veðri.

Á fimmtudag: Útlit fyrir norðaustanátt með úrkomu og hlýnandi veðri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×