Veður

Rigning eða slydda suðvestan­til

Atli Ísleifsson skrifar
Hiti á landinu verður á bilinu eitt til sex stig.
Hiti á landinu verður á bilinu eitt til sex stig. Vísir/Anton Brink

Veðurstofan gerir ráð fyrir norðaustanátt í dag, strekkingi nokkuð víða og hvassast á Vestfjörðum.

Á vef Veðurstofunnar segir að það verði él eða dálítil snjókoma á Norður- og Austurlandi, en suðvestanlands verði hins vegar lengst af rigning eða slydda og líklega snjókoma á heiðum.

Dálítil snjókoma eða él annars staðar, en að mestu þurrt á Suðausturlandi. Hiti á landinu verður á bilinu eitt til sex stig.

„Á morgun, þriðjudag er útlit fyrir stífa norðlæga átt með éljagangi fyrir norðan og austan, en léttir til á Suður- og Suðvesturlandi. Hiti um eða undir frostmarki.

Á miðvikudag er svo svipað veður áfram, norðaustan strekkkings vindur og él fyrir norðan og austan en léttskýjað um landið suðvestanvert. Hiti 1 til 4 stig yfir daginn en næturfrost víðast hvar,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Spákort fyrir klukkan 14. Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á þriðjudag: Norðan og norðaustan 8-15 m/s og él, en léttir til sunnan- og suðvestanlands. Hiti kringum frostmark, en vægt frost í innsveitum.

Á miðvikudag: Norðan 8-15, hvassast austast. Slydda eða snjókoma austanlands, annars él en þurrt á suðvestanverðu landinu. Hiti breytist lítið.

Á fimmtudag: Minnkandi norðanátt, styttir upp fyrir norðan, smáél austast, en léttir til á Suður- og Vesturlandi. Frost 0 til 5 stig yfir daginn.

Á föstudag: Norðlæg eða breytileg átt og sums staðar dálítil él. Áfram kalt í veðri.

Á laugardag (fyrsti vetrardagur): Breytileg átt, skýjað með köflum og yfirleitt þurrt, en suðaustanátt vestast um kvöldið og þykknar upp. Fremur kalt.

Á sunnudag: Útlit fyrir austlæga eða breytilega átt. Rigning, slydda eða snjókoma sunnantil, en lengst af þurrt fyrir norðan. Hlýnar sunnantil en annars svipað hitastig áfram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×