Viðskipti innlent

Segir ó­tækt að fá­mennur hópur geti lokað landinu

Lovísa Arnardóttir skrifar
Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair vonar að deiluaðilar komist að skynsamlegri lausn.
Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair vonar að deiluaðilar komist að skynsamlegri lausn. Vísir/Anton Brink

Forstjóri Icelandair segir ótækt að svo fámennur hópur eins og flugumferðarstjórar eru geti lokað landinu. Fátt virðist geta komið í veg fyrir að flugumferðarstjórar leggi niður störf annað kvöld. Kjaradeilan er í algjörum hnút en engin niðurstaða fékkst á síðasta fundi flugumferðarstjóra og Samtaka atvinnulífsins í gær. Nýr fundur hefur ekki verið boðaður og er fyrsta vinnustöðvun boðuð á morgun.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, var til viðtals í kvöldfréttum Sýnar og sagði þar frá því að þegar væri búið að færa til sex brottfarir sem voru áætlaðar á morgun og það hafi áhrif á fjölmarga farþega. Félagið verði fyrir kostnaði strax á morgun og farþegar fyrir óþægindum.

„Þetta snertir alla keðjuna, ferðaþjónustuna og útflytjendur á fiski.“

Félag íslenskra flugumferðarstjóra hafa boðað fimm verkföll á næstu dögum og hefst það fyrsta annað kvöld klukkan tíu. Deilur flugumferðarstjóra og samtakanna var vísað til ríkissáttasemjara í apríl en flugumferðarstjórarnir hafa verið samningslausir frá áramótum. Ekki hefur verið boðaður fundur í dag svo það telst líklegt að það verði af verkfallinu.

Í hádegisfréttum Bylgjunnar sagði Arnar Hjálmsson, formaður Félags íslenskra flugumferðarstjóra, að þau séu að reyna að semja um launahækkanir í samræmi við almenna launaþróun.

Bogi segir vinnustöðvunina svipaða og þá sem var 2023 og það verkfall hafi kostað félagið tæpan milljarð.

„Þetta er mjög slæm staða.“

Getur ekki lofað því að fólk komist á áfangastað

Bogi segist ekki geta lofað því að allir farþegar, sem eigi bókað flug þegar búið er að boða til vinnustöðvunar, komist leiðar sinnar. Það sé búið að koma farþegum sem hafi átt að fljúga á morgun í önnur flug en næstu dagar og vikur séu krefjandi.

„Ég get alls ekki lofað því að allir komist til síns heima eða á áfangastað. Útlitið er ekki þannig. Þannig ég bið farþega okkar og viðskiptavini að fylgjast vel með skilaboðum frá okkur,“ segir hann og að þau bindi vonir við að deiluaðilar komist að skynsamlegri niðurstöðu.

Hann segir flugrekstur á Íslandi krefjandi. Þrot Play sé dæmi um það og svo sýni nýjar bráðabirgðatölur fyrir þriðja ársfjórðung Icelandair að svigrúm þeirra er lítið sem ekkert.

„Þetta er bara eitthvað sem gengur ekki upp.“

Bogi fjallaði ítarlegar um þetta í aðsendri grein á Vísi í dag. Þar sagði hann ekki sjálfgefið að hér starfi alþjóðlegt flugfélag en við séum þó háð flugsamgöngum sem eyþjóð. Hann segir mikilvægt að Íslendingar vinni saman að því að skapa rekstrarhæft umhverfi fyrir íslensk flugfélög. Verkfall flugumferðarstjóra beinist fyrst og fremst að Icelandair en að afleiðingarnar muni ná langt út fyrir það.

Vinnustöðvun kostaði tæpan milljarð

„Síðasta vinnustöðvun flugumferðarstjóra árið 2023 kostaði Icelandair um 700 milljónir króna og olli verulegu raski fyrir farþega, íslenska ferðaþjónustu og útflutning. Enginn þessara aðila var hluti af deilunni en þeir báru kostnaðinn,“ segir hann í aðsendri grein á Vísi í dag.

Við það bætist að krónan sé sterk um þessar mundir og það eitt geri rekstur íslenskra flugfélaga, ferðaþjónustu og annarra útflutningsgreina enn erfiðari.

„Flugfélög eru „verðtakar“ í flestum stærstu kostnaðarliðum – eldsneyti, lendingar- og flugleiðsögugjöldum og kaupum á flugvélum – og er allur þessi kostnaður ákvarðaður á alþjóðlegum mörkuðum. Um þessar mundir leggjum við hjá Icelandair höfuðáherslu á hagræðingu í rekstri og höfum þegar gripið til fjölmargra aðgerða í þeim kostnaðarliðum sem við höfum stjórn á,“ segir hann í greininni.

Hann segir nauðsynlegt að styrkja rekstrargrundvöllinn eigi að tryggja framtíð íslensks flugrekstrar í stað þess að veikja hann.

„Verkfallið sem hefst væntanlega á morgun mun enn og aftur valda truflunum á leiðakerfi Icelandair og þar með raska ferðum okkar farþega sem og áætlunum íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja og útflutningsaðila. Tjónið lendir á þeim sem hafa enga aðkomu að deilunni,“ segir Bogi að þessi staða sé ekki boðleg ár eftir ár. Það sé nauðsynlegt að leysa deiluna á skynsamlegum nótum.

Bogi Nils segir alls ekki sjálfgefið að hér sé rekið alþjóðlegt flugfélag. Vísir/Lýður Valberg

„Við verðum að koma okkur á sama stað og hin Norðurlöndin þar sem svigrúm til launahækkana byggir á stöðu útflutningsgreinanna og verkföll verða ekki boðuð ef kröfur eru fyrir utan þann ramma. Það gengur ekki lengur að fámennir hópar geti lokað landinu með launakröfum sem grunnatvinnuvegir þjóðarinnar standa ekki undir,“ segir hann að lokum í greininni.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×