Erlent

Lecornu eygir von eftir á­kvörðun um að fresta hækkun eftirlaunaaldursins

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lecornu þarf að reiða sig á Sósíalista til að verjast vantrausti.
Lecornu þarf að reiða sig á Sósíalista til að verjast vantrausti. Getty/Christian Liewig

Sébastian Lecornu, forsætisráðherra Frakklands, hefur ákveðið að fresta fyrirhuguðum hækkunum á eftirlaunaaldrinum þar til eftir forsetakosningarnar árið 2027.

Með þessu vonast hann til að geta unnið nógu marga þingmenn Sósíalistaflokksins á sitt band til að forðast vantrauststillögu sem tekin verður til atkvæðagreiðslu á fimmtudaginn.

Mikið hefur gengið á í pólitíkinni í Frakklandi síðustu daga, vikur og raunar misseri. Lecornu var skipaður forsætisráðherra 9. september síðastliðinn en hann er fimmti forsætisráðherrann sem Emmanuel Macron Frakklandsforseti skipar í embætti á aðeins tveimur árum.

Í framhaldinu var ný ríkisstjórn tilkynnt til sögunnar þann 6. október en stjórnarandastaðan sagðist strax myndu leggja fram vantraust á hendur henni og sama dag ákvað Lecornu þá að segja af sér.

Macron biðlaði Lecornu hins vegar um að vera áfram og má segja að um lokatilraun sé að ræða hjá Macron til að komast hjá því að þurfa að boða til kosninga.

Repúblikanaflokkurinn hefur greint frá því að hann muni styðja ríkisstjórnina í atkvæðagreiðslunni á fimmtudag og það verður því undir Sósíalistum komið hvort stjórnin stendur eða fellur.

Boris Vallaud, þingflokksformaður Sósíalista, svaraði því ekki beint í morgun hvort flokkurinn myndi verja ríkisstjórnina falli en sagði ákvörðun Lecornu um að fresta hækkun eftirlaunaaldursins úr 62 árum í 64 ár „sigur“ og að flokkurinn væri reiðubúinn til að „veðja á“ frekari viðræður, að minnsta kosti í bili.

Stjórnarandstaðan þarf 288 til að fella ríkisstjórnina en vantar 24 atkvæði Sósíalista til að það takist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×