Erlent

Dóttir bæjar­stjórans grunuð um á­rásina

Atli Ísleifsson skrifar
Iris Stalzer fannst lífshættulega særð á heimili sínu í síðustu viku. Hún er ekki lengur í lífshættu.
Iris Stalzer fannst lífshættulega særð á heimili sínu í síðustu viku. Hún er ekki lengur í lífshættu. EPA

Iris Stalzer, verðandi bæjarstjóri í þýska bænum Herdecke sem fannst alvarlega særð eftir stungusár á heimili sínu í síðustu viku, hefur greint lögreglu frá því að ættleidd dóttir hennar beri ábyrgð á árásinni.

Þetta kom fram í máli lögreglu og saksóknara á fréttamannafundi um helgina. Lögregla greindi þar jafnframt frá því að Stalzer væri ekki lengur í lífshættu.

Stalzer var kjörin bæjarstjóri í bænum Herdecke í Norðurrín-Vestfalíu í lok septembermánaðar og mun hún taka við embættinu í nóvember.

Mikið var fjallað um árásina í þýskum fjölmiðlum í lok liðinnar viku, en hin 57 ára Stalzer var flutt með þyrlu á sjúkrahús með fjölda stungusára.

Lögregla sagði að Stalzer hefði náð að svara spurningum lögreglu á sjúkrahúsinu, en lögregla hefur ekki greint frá mögulegum ástæðum árásarinnar. Tvö börn hafi þó komið við sögu.

Lögregla og sjúkralið kom að Stalzer þar sem hún sat í stól inni á heimilinu með fjölda stungusára. Að sögn lögreglu er ljóst að til átaka hafði komið í kjallaranum á heimilinu og fundust tveir hnífar sem talið er að hafi verið notaðir í árásinni.

Þegar lögregla fékk upphaflega tilkynningu um árásina frá sautján ára dóttur Stalzer og fimmtán ára syni, sögðu þau að hópur manna hafi ráðist á Stalzer fyrir utan húsið og hún náð að flýja inn á heimilið. Stalzer greindi lögreglu þó frá því að það væri ekki rétt og að í raun hafi dóttir hennar ráðist á sig. Börnin tvö eru nú í umsjá félagsmálayfirvalda.

Íbúar Herdecke telja um 23 þúsund.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×