Enski boltinn

John Stones í­hugaði að hætta í fót­bolta

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Meiðsli hafa sett stórt strik í reikning Johns Stones í gegnum árin.
Meiðsli hafa sett stórt strik í reikning Johns Stones í gegnum árin. epa/ADAM VAUGHAN

Enski landsliðsmaðurinn hjá Manchester City, John Stones, íhugaði að leggja skóna á hilluna á síðasta tímabili vegna þrálátra meiðsla.

Stones spilaði aðeins ellefu leiki í ensku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili og missti af síðustu mánuðum þess vegna meiðsla. Í viðtali við BBC sagðist Stones hafa leitt hugann að því að hætta í fótbolta.

„Síðasta tímabil var erfitt fyrir mig, svo erfitt að ég hugsaði um að hætta. Ég vildi ekki gera þetta. Ég hafði fengið nóg af því að vera svo faglegur og gera allt sem í mínu valdi stóð en brotna svo niður og standa eftir án svara. Þetta var mjög erfiður staður til að vera á,“ sagði Stones.

Hann gekk í raðir City frá Everton fyrir níu árum en hefur misst mikið úr vegna meiðsla síðan hann kom til Manchester-liðsins.

„Sú stund rennur upp þegar þú veist ekki af hverju þetta gerist og það er jafnvel erfiðara þegar þú leggur svo mikið í þetta til að spila. Síðan gerist eitthvað og það væri auðveldara að segja: Jæja, ég gerði ekki þetta eða hitt og þess vegna gerðist þetta. Þetta er krefjandi fyrir andlegu hliðina. Vonandi fer ég ekki aftur á þennan stað,“ sagði Stones og bætti við að hann hafi ekki hugsað skýrt þegar hann íhugaði að leggja skóna á hilluna.

Stones hefur verið í byrjunarliði City í fimm leikjum á tímabilinu en virðist vera fyrir aftan Rúben Dias og Josko Gvardiol í goggunarröð miðvarða liðsins.

City vann 0-1 sigur á Brentford í ensku úrvalsdeildinni á sunnudaginn. Liðið er í 5. sæti með þrettán stig, þremur stigum á eftir toppliði Arsenal.

Stones, sem er 31 árs, hefur unnið allt sem hægt er að vinna með City, meðal annars ensku úrvalsdeildina sex sinnum og Meistaradeild Evrópu einu sinni.

Stones er í enska landsliðinu sem mætir Wales í vináttulandsleik á fimmtudaginn og Lettlandi í undankeppni HM 2026 á þriðjudaginn kemur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×