Innlent

Prestur og pró­fastur bíður spenntur eftir Hrútaskránni

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Presturinn og prófasturinn, sem er mjög spenntur fyrir nýju Hrútaskránni, sem kemur fljótlega út í tengslum við fengitímann.
Presturinn og prófasturinn, sem er mjög spenntur fyrir nýju Hrútaskránni, sem kemur fljótlega út í tengslum við fengitímann. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Prestur og prófastur á Suðurlandi ræður sér vart yfir spenningi að bíða eftir því að Hrútaskráin komi út enda segir hann að skráin sé eitt af helgiritum heimilisins áður en fengitíminn hefst. Sjálfur er klerkurinn með um 100 fjár.

Réttað hefur verið síðustu vikur á Suðurlandi eins og í öðrum landshlutum. Séra Óskar Hafsteinn prestur í Hruna og prófastur í Suðurprófastsdæmi mætir alltaf í Hrunaréttir við Flúðir þó hann eigi ekkert fé þar því hann rekur ekki á fjall. En á sama tíma finnst honum alltaf ómetanlegt að komast í réttirnar og skoða lömbin og sjá hvernig féð kemur af fjalli. Sjálfur er hann með um hundrað kindur í Hruna.

Séra Óskar segir allt svo skemmtilegt og ánægjulegt við sauðfjárræktina og þar spilar Hrútaskráin stórt hlutverk hjá honum.

„Það hefur allt sinn sjarma, réttarstörfin og fjárragið á haustin. Svo sauðburðurinn á vorin að ógleymdum fengitímanum og Hrútaskránni. Ég veit ekki, árið er bundið,” segir Óskar.

Þannig að þú ert spenntur fyrir Hrútaskránni?

„Já mjög, það er bara eitt af helgiritunum á heimili mínu”.

Hrútaskráin frá því í fyrra en ný Hrútaskrá mun koma út fljótlega. Magnús Hlynur Hreiðarsson

En hvernig er að vera sauðfjárbóndi í dag?

„Það er bara dásamlegt, þetta er algjörlega hluti af því að búa í svona samfélagi að vera með fé,” segir Óskar.

Í Hruna eru um 100 fjár. Ekki er rekið á fjall á bænum. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Prestur, sauðfjárbóndi og prófastur, hvernig fer þetta saman?

„Þetta er bara hannað saman, þetta verður ekki betra,” segir hann kampakátur.

Séra Óskar Hafsteinn býr á prestsetrinu Hruna í Hrunamannahreppi með sinni fjölskyldu.Magnús Hlynur Hreiðarsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×