Fótbolti

Sverrir strax úr frystinum eftir brott­reksturinn

Sindri Sverrisson skrifar
Sverrir Ingi Ingason með boltann í landsleiknum gegn Frökkum á dögunum. Hann spilaði síðustu landsleiki án þess að hafa verið að spila fyrir Panathinaikos.
Sverrir Ingi Ingason með boltann í landsleiknum gegn Frökkum á dögunum. Hann spilaði síðustu landsleiki án þess að hafa verið að spila fyrir Panathinaikos. Getty/Tnani Badreddine

Eftir að hafa ekki fengið að spila með Panathinaikos síðan á síðustu leiktíð var Sverrir Ingi Ingason mættur í byrjunarliðið í dag, í fyrsta leiknum eftir að Rui Vitória var rekinn.

Sverrir hafði þurft að sætta sig við að sitja á varamannabekknum hjá Panathinaikos í Evrópuleikjunum í sumar og í fyrstu tveimur leikjunum í grísku úrvalsdeildinni.

Þrátt fyrir að hafa spilað báða landsleiki Íslands í síðasta glugga, og staðið sig vel, gegn Aserbaísjan og Frakklandi, þá var Sverrir á bekknum í 3-2 tapi gegn Kifisia á sunnudaginn.

Það reyndist síðasti leikurinn í afar skammri stjórnartíð Vitória og eru forráðamenn Panathinaikos nú í leit að arftaka hans.

Á meðan stýrir Dimitris Koropoulis, þjálfari ungmennaliðs Panathinaikos, skútunni og hann gerði miklar breytingar á byrjunarliðinu fyrir bikarleik við B-deildarlið Kallithea í dag.

Sverrir var á meðal þeirra sem komu inn í byrjunarliðið og stóð í vörninni sem hélt hreinu, í 1-0 sigri. Cyriel Dessers skoraði eina markið á 32. mínútu en annað mark var dæmt af Panathinaikos og vítaspyrna einnig tekin af liðinu eftir skoðun á myndbandi.

Næsti leikur Panathinaikos er á sunnudaginn við erkifjendurna í Olympiacos.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×