Enski boltinn

„United er að keppa við hina Ferrari-bílana en með Skoda-vél“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ruben Amorim er undir mikilli pressu.
Ruben Amorim er undir mikilli pressu. epa/ADAM VAUGHAN

Sigurbjörn Hreiðarsson og Adda Baldursdóttir ræddu um stöðu Rubens Amorim, knattspyrnustjóra Manchester United, í Sunnudagsmessunni í gær.

United tapaði fyrir grönnum sínum í Manchester City, 3-0, í gær og er aðeins með fjögur stig eftir fyrstu fjórar umferðirnar í ensku úrvalsdeildinni.

Síðan Amorim tók við United hefur liðið einungis unnið átta af 31 deildarleik. Þrátt fyrir það hefur Portúgalinn ekki breytt um leikkerfi. Hann hefur spilað 3-4-3 í öllum leikjum síðan hann tók við United. Adda telur að Amorim haldi sig við kerfið.

„Ég held ekki. Mér finnst hann vera búinn að segja það sjálfur. Hann er ekki að fara að gefast upp á því,“ sagði Adda.

„Það er eitt að tala um einhver leikkerfi en að horfa á Manchester United, þá spila þeir alltaf nákvæmlega eins. Það er engin sveigjanleiki. Ef þú ert að spila þetta kerfi þarftu að vera með leikmennina í það og United er svo sannarlega ekki með leikmennina í það.“

Klippa: Sunnudagsmessan - umræða um Amorim

Stefán Árni Pálsson spurði Sigurbjörn af hverju Amorim væri enn við stjórnvölinn hjá United, í ljós slæms gengis síðan hann tók við.

„Það er góð spurning en þeir þráast við. Hann kemur inn á miðju tímabili í fyrra og byrjar með þetta. Eins og Adda segir er hann ekki að fara að breyta. Hann hefur ekki unnið tvo leiki í röð og flestir sigurleikjanna eru gegn liðum í fallsætum. Eitthvað hefur hann á forystu United,“ sagði Sigurbjörn.

„United er að keppa við hina Ferrari-bílana en með Skoda-vél. Hann kann ekki á beinskiptan og þetta er orðið vesen. Þeir eru ekki með nógu góða leikmenn til að keppa við þá allra bestu,“ bætti Sigurbjörn við.

Innslagið úr Sunnudagsmessunni má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir

Tvö frá Haaland og Manchester er blá

Eftir tvö töp í röð er Manchester City komið aftur á sigurbraut eftir öruggan 3-0 sigur gegn Manchester United í stórleik og nágrannaslag liðanna í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×