Fótbolti

Brosandi Emelía sneri aftur eftir 406 daga bið

Sindri Sverrisson skrifar
Emelía Óskarsdóttir er mætt aftur út á fótboltavöllinn og ánægjan leyndi sér ekki.
Emelía Óskarsdóttir er mætt aftur út á fótboltavöllinn og ánægjan leyndi sér ekki. Instagram/@hbkogewomen

Langri þrautagöngu fótboltakonunnar ungu Emelíu Óskarsdóttur lauk loksins þegar hún sneri aftur út á fótboltavöllinn í fyrradag og lék sinn fyrsta leik í fjórtán mánuði.

Danska liðið HB Köge, sem er á toppi dönsku úrvalsdeildarinnar, bauð Emelíu velkomna aftur út á völlinn í sérstakri færslu á Instagram þar sem því var fagnað að hún gæti spilað að nýju, 406 dögum eftir að hafa meiðst.

Emelía sleit krossband í hné í fyrrasumar og hefur síðan þá verið frá keppni. Hún hafði komið til Köge og spilað sjö leiki með liðinu í dönsku úrvalsdeildinni tímabilið áður en hún meiddist, og skorað eitt mark, en var áður hjá Selfossi og í Kristianstad í Svíþjóð.

Emelía hefur leikið 37 leiki fyrir yngri landslið Íslands og skorað í þeim þrettán mörk. Síðasti leikur hennar fyrir meiðslin var einmitt með U19-landsliðinu gegn Svíum í 1-1 jafntefli 15. júlí í fyrra, þar sem Emelía skoraði mark Íslands.

Hún sneri aftur á völlinn í fyrradag þegar hún kom inn á sem varamaður tíu mínútum fyrir leikslok, í 3-2 sigri Köge gegn Farul Constanta í nýju Evrópukeppninni; Evrópubikarnum.

Staðan var 2-2 þegar Emelía kom inn á en sigurmark Köge kom svo í uppbótartíma.

Þetta var fyrri leikur liðanna í undankeppni Evrópubikarsins en seinni leikurinn er næsta miðvikudag og er það heimaleikur rúmenska liðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×