Enski boltinn

Romano segir Real Betis hafa dregið sam­þykkt til­boð í Antony til baka

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Antony fagnar marki með Real Betis á síðasta tímabili.
Antony fagnar marki með Real Betis á síðasta tímabili. EPA/JULIO MUNOZ

Manchester United seldi Alejandro Garnacho til Chelsea í gær og var í viðræðum um sölu á Antony til spænska félagsins Real Betis í kvöld. Það er þó ekki allir fjölmiðlar sammála um stöðu mála.

United lánaði Antony til Real Betis í fyrravetur og hann sló þar í gegn. Spænska félagið vill kaupa hann en fá hann á afsláttarverði því félagið hefur ekki efni á meiru.

ESPN og fleiri miðlar sögðu frá því í kvöld að Manchester United hefði samþykkt að selja Brasilíumanninn fyrir 25 milljónir punda en enska félagið átti þá einnig að fá helming söluverðsins ef Betis selur Antony áfram.

Fabrizio Romano kom seinna fram og sagði að Real Betis hefði dregið tilboðið til baka af því að félagið hefði ekki efni á því að eyða svo miklu í leikmanninn.  Romano vísar þá í tilkynningu frá félaginu þar sem segir að það sé ekki nein læknisskoðun á dagskrá fyrir Antony.

Antony þarf væntanlega að lækka sig í launum og þar liggur líkegast stærsta vandamálið fyrir spænska félagið.  Hann er með samning við United til 2027 eða í tvö ár í viðbót. Brassinn vill væntanlega ekki gefa þau laun frá sér og á meðan United gerir það ekki upp við hann þá treystir Real Betis sér ekki til að borga honum slíka upphæð.

United keypti Antony frá Ajax fyrir 86 milljónir punda fyrir þremur árum og enska félagið er væntanlega að tapa stórum upphæðum á leikmanninum sem náði sér aldrei á strik á Old Trafford.

Antony var með 9 mörk og 5 stoðsendingar í 26 leikjum með Real Betis seinni hluta síðasta tímabils.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×