Fótbolti

Kom inn á fyrir Dag, skoraði og kýldi mót­herja

Sindri Sverrisson skrifar
Luis Muriel labbar í burtu eftir að hafa misst stjórn á skapi sínu og fengið rautt spjald.
Luis Muriel labbar í burtu eftir að hafa misst stjórn á skapi sínu og fengið rautt spjald. Getty/Carly Mackler

Hinn kólumbíski Luis Muriel, sem lengi spilaði á Ítalíu og Spáni, átti ansi skrautlega innkomu fyrir Dag Dan Þórhallsson í bandarísku MLS-deildinni í fótbolta í nótt.

Eftir fjóra sigra í röð urðu Dagur, Muriel og félagar í Orlando City að játa sig sigraða í nótt þegar þeir steinlágu gegn Nashville á útivelli, 5-1. Liðin voru jöfn að stigum fyrir leikinn.

Staðan var orðin 4-0 þegar Muriel var skipt inn á fyrir Dag á 74. mínútu og aðeins tveimur mínútum síðar skoraði Kólumbíumaðurinn gott mark.

En þegar Muriel hafði verið inni á vellinum í alls sjö mínútur fékk hann beint rautt spjald fyrir að kýla mótherja, Ahmed Qasem. Muriel var óánægður með að Qasem væri að tefja með því að taka boltann og þykjast eiga innkast, sló boltann úr höndum hans en fylgdi því svo eftir með kjaftshöggi eins og sjá má í hápunktum leiksins hér að neðan.

Mark Muriels kemur eftir 5:47 mínútur og rauða spjaldið eftir 6:29.

Orlando er nú í 7. sæti af 30 liðum deildarinnar með 47 stig eftir 28 leiki, stigi fyrir ofan Messi og félaga í Inter Miami sem eiga hins vegar þrjá leiki til góða. Orlando og Inter Miami mætast einmitt í undanúrslitum deildabikarsins aðfaranótt fimmtudags. Nashville er í 4. sæti með 50 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×