Enski boltinn

Tölvuleikurinn Grand Theft Auto boðar mjög gott fyrir Man. United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sir Alex Ferguson, þáverandi knattspyrnustjóri Manchester United, lyftir Englandsbikarnum vorið 2013.
Sir Alex Ferguson, þáverandi knattspyrnustjóri Manchester United, lyftir Englandsbikarnum vorið 2013. Getty/Alex Livesey

Ef það er eitthvað úrvalsdeildarfélag sem fagnar nýrri útgáfu á tölvuleiknum Grand Theft Auto meira en önnur þá er það Manchester United en ástæðu þess má finna í sögunni.

Það eru tólf ár síðan Manchester United varð síðast enskur meistari og árin verða orðin þrettán þegar Englandsbikarinn fer aftur á loft næsta vor.

Það er auðvitað lítill meistarabragur á liðinu í dag enda náði United aðeins fimmtánda sæti í ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð.

Portúgalinn Ruben Amorim er að byrja sitt fyrsta fulla tímabil og hefur hreinsað rækilega til í leikmannahópnum þótt að það gangi vissulega illa að selja svörtu sauðina hans.

Sagan segir þó að stuðningsmenn United geti látið sig dreyma um langþráðan Englandsmeistaratitil vorið 2026.

Ástæðan er sú að United hefur alltaf orðið meistari þegar ný útgáfa af Grand Theft Auto tölvuleiknum kemur út.

Þetta gerðist 1997 (Grand Theft Auto), 1999 (Grand Theft Auto 2), 2001 (Grand Theft Auto III), 2008 (Grand Theft Auto IV) og 2013 (Grand Theft Auto V).

Nú bárust fréttir af því að Grand Theft Auto VI sé að koma út á næsta ári og það boðar bara eitt ekki satt?




Fleiri fréttir

Sjá meira


×