Golf

Risaskjár og stuðsvæði á Ís­lands­mótinu í golfi

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Aðstaða áhorfenda á Hvaleyrarvellinum verður betri en nokkru sinni fyrr.
Aðstaða áhorfenda á Hvaleyrarvellinum verður betri en nokkru sinni fyrr. GSÍ / seth@golf.is

Aðstaða fyrir áhorfendur á Íslandsmótinu í golfi verður einkar vegleg þetta árið. Að erlendri fyrirmynd verður risaskjá komið fyrir á Hvaleyrarvelli og sérstakt áhorfendasvæði verður opnað, ásamt veitingatjaldi sem rúmar hundrað manns. Frítt er inn á mótið fyrir alla sem vilja fylgjast með.

Kort af Hvaleyrarvellinum eins og hann verður um næstu helgi. GSÍ

Golfklúbburinn Keilir heldur Íslandsmótið á Hvaleyrarvelli í Hafnarfirði þetta árið, mótið hefst næsta fimmtudag og lýkur á sunnudag. Þar munu fremstu kylfingar landsins, atvinnukylfingar og margir fyrrverandi meistarar etja kappi.

Meðal bestu keppenda í karlaflokki má nefna Tómas Eiríksson Hjaltested, sem er með lægstu forgjöfina og hefur verið í fimm efstu sætunum í öllum mótum sumarsins, eða atvinnukylfingana Guðmund Ágúst Kristjánsson og Harald Franklín Magnús, sem leika báðir á næststerkustu Evópumótaröðinni. Að ógleymdum ríkjandi Íslandsmeistaranum, Aroni Snæ Júlíussyni. 

Meðal besta keppenda í kvennaflokki má nefna Ragnhildi Kristinsdóttur, sem varð á dögunum fyrsti íslenski atvinnukylfingurinn til að fagna sigri næststerkustu Evrópumótaröðinni, og þrefalda meistarann frá því í fyrra, Huldu Clöru Gestsdóttur.

Hulda Clara og Aron Snær eru ríkjandi Íslandsmeistarar.GSÍ / seth@golf.is

Þau ásamt fjölmörgum öðrum kylfingum munu leika listir sínar á Hvaleyrarvellinum, frekar má lesa um keppendur hér, áhorfendur geta fylgst vel með og notið sín á meðan.

Veitingatjald, risaskjár og stuðsvæði

Veitingatjald verður staðsett á miðri Hvaleyrinni, við fjórtándu flötina. Þar munu um hundrað manns geta fengið sér sæti og notið veitinga en jafnframt fylgst með mótinu á sjónvarpsskjá.

Við fimmtándu flötina verður svo komið fyrir risaskjá, tvö hundruð fermetra breiðtjaldi, sem mun sýna stöðu mótsins og allar helstu upplýsingar.

Fyrir utan golfskálann verður mesta stuðið, á sérstöku stuðningsmannasvæði (e. FanZone) þar sem áhorfendur geta komið saman og gert sér glaðan dag.

„Allir eru velkomnir á Íslandsmótið í golfi til að fylgjast með landsins bestu og efnilegustu kylfingum, og ekki þarf að greiða aðgangseyri“ segir í fréttatilkynningu Keilis.

Hvaleyrarvöllur í Hafnarfirði er einn glæsilegasti golfvöllur landsins. keilir.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×