Fótbolti

Rashford kynntur hjá Barcelona: „Eins og ég sé kominn heim“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Marcus Rashford brosti út að eyrum þegar hann var kynntur hjá Barcelona í kvöld.
Marcus Rashford brosti út að eyrum þegar hann var kynntur hjá Barcelona í kvöld. Getty/David Ramos

Marcus Rashford var í kvöld kynntur sem nýr leikmaður Barcelona en hann kemur til spænska stórliðsins á láni frá Manchester United.

Fréttir frá Spáni segja að Barcelona geti keypt Rashford fyrir um þrjátíu miljónir evra næsta sumar en hvorugt félagið hefur staðfest það.

Hinn 27 ára gamli Rashford flaug til Barcelona á sunnudaginn og náði að klára félagsskiptin sín áður en Börsungar byrja æfingaferð sína til Japans og Suður-Kóreu.

Barcelona hefur staðfest að Rashford spili í treyju númer fjórtán.

„Ég er mjög spenntur. Þetta er félag þar sem draumar manna rætast. Hér vinna menn stóra titla og það skiptir mig miklu máli hvað þetta félag stendur fyrir,“ sagði Marcus Rashford við Barca TV.

„Það er eins og ég sé kominn heim. Þetta er fjölskyldufélag, fólki líður vel hér og þetta er góður staður fyrir leikmenn til að sýna hvað þeir geta,“ sagði Rashford.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×