Innlent

Búast við gosmóðu fyrir norðan og vestan næstu daga

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Mikil gosmóða lá yfir Akureyri í gær.
Mikil gosmóða lá yfir Akureyri í gær. Axel Gunnarsson

Gasmengunar frá eldgosinu við Sundhnúksgígaröðina hefur orðið viðvart víða um land. Kjöraðstæður eru fyrir gosmóðu og því varar Veðurstofan við útiveru í lengri tíma og áreynslu utandyra þar sem gasmengun mælist. 

Í stöðuuppfærslu Veðurstofunnar á eldgosinu við Sundhnúksgígaröðina segir að virkni þess hafi dregist saman síðasta sólarhring. Meginvirkni sé nú á miðbiki sprungunnar og lítil sem engin skjálftavirkni hafi mælst á kvikuganginum. Þá hafi dregið úr óróa í kringum gosstöðvarnar.

Þar sem ekki hefur komið upp aska í þessu gosi og hafi gosið ekki haft áhrif á flugumferð til eða frá landinu.

Heilsuhraust fólk finni jafnvel fyrir menguninni

Gasmengun frá eldgosinu hafi nú borist víða um land og sjáist greinilega yfir hafinu norðan og vestan lands. 

„Gosmóða (blámóða) hefur myndast í talsverðu magni við kjöraðstæður sem nú ríkja – hægur vindur, raki og sólskin – og hefur hennar orðið vart víða um land. Einkum hefur blámóða verið áberandi á Norður- og Vesturlandi, þar sem bæði mælingar og sjónræn merki styðja viðveru hennar,“ segir í færslunni. 

Veðurstofan ráðleggur þeim sem eru viðkvæmir í öndunarfærum, börnum og eldra fólki að forðast útivist í lengri tíma og minnka áreynslu utandyra á meðan mengun varir. 

Heilsuhraust fólk geti einnig orðið vart við óþægindi. Mælt sé með að loka gluggum og draga úr loftræstingu innandyra þar sem við á, og lofta út þegar mengun minnkar.

Gosmóða liggi víða yfir landinu, sérstaklega á norðan- og vestanverðu landinu. Veðurspá geri ráð fyrir hægum vindi næstu daga, með breytilegri átt og skúrum víða um land. Slík veðurskilyrði séu til þess fallin að gosmóða verði áfram staðbundin á ákveðnum svæðum.

Veðurstofan ráðleggur fólki að fylgjast með gasmengunarspá Veðurstofunnar og vef Umhverfisstofnunar, Loftgæði.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×