Enski boltinn

Liverpool reynir líka við Ekitike

Valur Páll Eiríksson skrifar
Líklegt þykir að Ekitike spili fótbolta annað hvort á Anfield eða St. James' Park á næstu leiktíð. Það veltur líklega á því hvernig Newcastle og Liverpool gengur að semja um Alexander Isak.
Líklegt þykir að Ekitike spili fótbolta annað hvort á Anfield eða St. James' Park á næstu leiktíð. Það veltur líklega á því hvernig Newcastle og Liverpool gengur að semja um Alexander Isak. Christof Koepsel/Getty Images

Liverpool hefur sett sig í samband við þýska liðið Eintracht Frankfurt vegna mögulegra kaupa á Frakkanum Hugo Ekitike. Sá hefur verið í viðræðum við Newcastle United en Liverpool er einnig á eftir framherja þeirra svarthvítu.

Arne Slot, þjálfari Liverpool, er sagður hafa nýjan framherja efstan á lista yfir þarfir Liverpool fyrir komandi leiktíð en Darwin Nunez er ekki í náðinni hjá hollenska stjóranum. Þá fækkaði framherjum Liverpool við skyndilegt fráfall Diogo Jota eftir bílslys.

Liverpool hefur áður verið orðað við Ekitike en Newcastle hefur lagt mikið í sölurnar til að semja við franska framherjann. Ekki hefur þó tekist að ná samkomulagi við Frankfurt um kaupverð. 75 milljón evra tilboði var hafnað í vikunni.

Liverpool hefur sett sig í samband við Newcastle vegna Svíans Alexanders Isak og talið reiðubúið að reiða fram 120 milljónir punda fyrir besta leikmann Newcastle, sem er ekkert sérlega hrifið af hugmyndinni að selja Svíann.

Liverpool hefur nú sett pressu á félagið úr annarri átt með því að troða sér inn í baráttuna um Ekitike. Skilaboð Liverpool til Newcastle séu í raun: Ef þið seljið okkur ekki Isak þá tökum við Ekitike einfaldlega undan nefinu á ykkur.

Ekitike er 23 ára gamall og skoraði 22 mörk auk þess að leggja upp tólf í öllum keppnum með Frankfurt á síðustu leiktíð. Fátt bendir til þess að hann haldi kyrru fyrir í Þýskalandi þegar boltinn fer aftur að rúlla í haust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×