Innlent

Skoða hvort gosið breyti heim­sókn von der Leyen

Jón Þór Stefánsson skrifar
Ursula von der Leyen er á leiðinni til Íslands og hafði hugsað sér að kíkja til Grindavíkur. Skammt frá er hafið eldgos.
Ursula von der Leyen er á leiðinni til Íslands og hafði hugsað sér að kíkja til Grindavíkur. Skammt frá er hafið eldgos. Vísir/Björn Steinbeck/EPA

Til skoðunar er hvort eldgosið á Sundhnúksgígaröðinni sem hófst í nótt hafi áhrif á Íslandsheimsókn Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Hún kemur til landsins í kvöld.

Dagskrá heimsóknarinnar hafði verið birt á vef stjórnarráðsins, en þar sagði að von der Leyen myndi kynna sér starfsemi almannavarna og áfallaþol á Íslandi með heimsókn til Grindavíkur. Þar myndi hún fara í skoðunarferð um varnargarðana í Svartsengi. Til stóð að sú ferð færi fram á morgun.

„Við þurfum að sjá hvernig hlutirnir þróast í dag,“ segir Kristín Ólafsdóttir, aðstoðarmaður forsætisráðherra, í samtali við fréttastofu.

Ekkert bendir til þess að heimsókninni verði aflýst eða frestað, heldur er einungis til skoðunar hvort eitthvað raskist varðandi Grindavíkurheimsóknina.

„Ég held að það séu meiri líkur en minni á að við getum haldið okkur nokkurn veginn við planið, en það er ekki víst alveg eins og stendur.“

Þau vonist til að það dragi úr gosinu í dag, líkt og hefur gerst í síðustu gosum.

„Við erum í góðu sambandi við almannavarnir, fylgjum þeirra leiðbeiningum og verðum tilbúin með plan B ef þörf er á.“


Tengdar fréttir

Ursula von der Leyen kemur til Íslands

Urusula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, dvelur á Íslandi dagana 16. til 18. júlí. Á meðan dvölinni stendur mun hún funda með Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur utanríkisráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×