Enski boltinn

Henry segir að Arsenal hafi ekki staðið undir væntingum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Thierry Henry skoraði 228 mörk fyrir Arsenal á sínum tíma.
Thierry Henry skoraði 228 mörk fyrir Arsenal á sínum tíma. getty/Jacopo M. Raule

Markahæsti leikmaður í sögu Arsenal, Thierry Henry, segir að liðið hafi ekki staðið undir væntingum undanfarin þrjú ár.

Arsenal endaði í 2. sæti ensku úrvalsdeildarinnar á nýafstöðnu tímabili en þetta er þriðja árið í röð sem liðið endar þar. Skytturnar voru svo slegnar úr leik í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu og deildabikarsins. Arsenal hefur ekki unnið titil síðan liðið varð bikarmeistari vorið 2020, á fyrsta tímabili Mikels Arteta við stjórnvölinn.

„Ég er ekki að segja að ég sé vonsvikinn með Arsenal en það er eðlilegt að fólk spyrji spurninga um hvað liðið sé að gera,“ sagði Henry í hlaðvarpinu Stick to Football.

„Ég skil að þegar þú kemur í byrjun er þetta ekki þitt lið. Þú þarft allavega 3-4 félagaskiptaglugga til að breyta öllu sem þú vilt. Það tekur tíma og þú þarft að gefa stjóra tíma til að koma sínum áherslum á framfæri. Síðustu þrjú árin eða svo hefur Arsenal verið í stöðu þar sem þeir ættu allavega að hafa unnið einn titil eða komist í úrslitaleik.“

Henry segir að stuðningsmenn Arsenal ættu ef til vill að fara varlega í að gleðjast yfir óförum Manchester United undanfarin ár.

„United hefur spilað í fimm úrslitaleikjum síðustu fimm árin. United sem allir hlæja að á meðan Arsenal hefur ekki komist í úrslitaleik. Svo ég skil þegar fólk spyr spurningarinnar hvort þú ættir ekki örugglega að vera að berjast um titil,“ sagði Frakkinn.

Arteta var ráðinn stjóri Arsenal 20. desember 2019. Hann hefur stýrt liðinu í 290 leikjum; 169 þeirra hafa unnist, 55 endað með jafntefli og 66 tapast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×