Sport

Þjálfar enn í skugga réttar­haldanna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gjert Ingebrigtsen gæti verið á leið í fangelsi fyrir að hafa beitt börn sín ofbeldi.
Gjert Ingebrigtsen gæti verið á leið í fangelsi fyrir að hafa beitt börn sín ofbeldi. epa/VIDAR RUUD

Gjert Ingebrigtsen þjálfar portúgalskan hlaupara þrátt fyrir að bíða niðurstöðu réttarhaldanna yfir honum. Hann er ásakaður um að hafa beitt börn sín ofbeldi.

VG greinir frá því að Ingebrigtsen sé að þjálfa Portúgalann José Carlos Pinto og hann hafi verið við æfingar í Sandnes í Noregi.

Pinto hefur birt myndir frá æfingunum á samfélagsmiðlum og umboðsmaður hans staðfesti við VG að hann væri að æfa undir handleiðslu Ingbrigtsens.

Pinto hefur sex sinnum orðið landsmeistari í Portúgal og er í 92. sæti á heimslistanum í fimmtán hundruð metra hlaupi. Besti tími hans í greininni er 3:37,73 mínútur.

Að sögn umboðsmanns Pintos ætlar hann að keppa á þremur mótum í Noregi í næsta mánuði.

Réttarhöldunum yfir Ingebrigtsen lauk fyrir nokkrum dögum. Úrskurður í málinu verður kveðinn upp 16. júní. Ingebrigtsen er sakaður um að hafa beitt son sinn, hlauparann Jacob, og dóttur sína, Ingrid, andlegu og líkamlegu ofbeldi. Saksóknarar í málinu fóru fram á tveggja og hálfs árs fangelsi yfir Ingebrigtsen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×