Sport

Tólf ára sundstelpa slær í gegn

Sindri Sverrisson skrifar
Yu Zidi er farin að geta synt á ógnarhraða aðeins tólf ára gömul.
Yu Zidi er farin að geta synt á ógnarhraða aðeins tólf ára gömul. Skjáskot

Hin tólf ára gamla Yu Zidi er farin að synda svo hratt að hún hefði getað komist í undanúrslit á síðustu Ólympíuleikum.

Yu keppti á kínverska meistaramótinu á sunnudaginn og synti þá 200 metra fjórsund á 2:10,63 mínútum. Til samanburðar þá er Íslandsmet Hrafnhildar Lúthersdóttur í greininni 2:13,83 svo tími Yu var meira en þremur sekúndum betri.

Þessi tími Yu er vel undir lágmarkinu fyrir HM í Singapúr í sumar og því allt eins líklegt að hún keppi þar, enn aðeins tólf ára að aldri, en kínverska sundsambandið segist ætla að bíða þar til að meistaramótinu lýkur á laugardag áður en HM-hópurinn verður valinn.

Yu hafnaði í 2. sæti í fjórsundinu á eftir hinni nítján ára gömlu Yu Yiting sem nældi í tvenn bronsverðlaun á Ólympíuleikunum í París í fyrra. Tími hinnar tólf ára gömlu Yu Zidi er sá besti í sögunni í hennar aldursflokki.

Yu Zidi verður ekki þrettán ára fyrr en í október en hefur verið lýst sem „nýrri stjörnu“ í kínverskum miðlum eftir að hafa fyrst vakið athygli á síðasta ári.

„Árið 2024 tók ég þátt í nokkrum mótum, náði góðum úrslitum og það fóru margir sundunnendur að þekkja mig,“ sagði Yu fyrr á þessu ári.

„Eftir að hafa keppt á stórmótum þá skil ég betur hvað það er mikilvægt að standa sig vel á öllum æfingum til að geta ná góðum úrslitum og hafa sterkt hjarta. Það sem er kannski erfiðast er þegar maður er hvað næst markmiði sínu. Maður verður að halda áfram,“ sagði Yu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×