Fótbolti

Asencio verður á­kærður fyrir að dreifa barna­klámi

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Raul Asencio var í byrjunarliði Real Madrid í gærkvöldi.
Raul Asencio var í byrjunarliði Real Madrid í gærkvöldi. Pedro Salado/Getty Images

Raúl Asencio og þrír leikmenn sem spiluðu með honum í ungmennaliði Real Madrid, Ferran Ruiz, Andres Martin og Juan Rodriguez eru ásakaðir um að hafa í leyfisleysi tekið upp og dreift kynferðislegu myndefni af tveimur konum. Önnur þeirra var undir lögaldri. Rannsókn málsins er lokið og ákærur verða gefnar út á næstunni.

Atvikið á að hafa átt sér stað á strandklúbbi á Kanarí þann 15. júní árið 2023. Leikmennirnir þrír úr ungmennaliðinu voru handteknir í september 2023 og Asencio var beðinn um vitnisburð en var síðan sjálfur rannsakaður í kjölfarið, grunaður um að hafa átt hlut í máli.

Konurnar voru sextán og átján ára þegar atvikin eiga að hafa átt sér stað. Þær eru sagðar sýna merki um áfallastreituröskun.

Ferran Ruiz er leikmaður Girona í spænsku úrvalsdeildinni.

Leikmennirnir þrír úr ungmennaliðinu fóru allir frá Real Madrid síðasta sumar. Ruiz fór til Girona og spilar með liðinu í úrvalsdeildinni. Martin og Rodriguez spila með liðum í þriðju deild Spánar. Asencio var í byrjunarliði Real Madrid í gær, í 2-1 sigri gegn Mallorca. Leikurinn hófst rétt eftir að fregnirnar bárust.

Málið mun nú berast til ríkissaksóknara, sem mun gefa út ákærur á hendur mannanna fjögurra.

Hvorki Real Madrid né Asencio hafa tjáð sig, en lögfræðingur hans reyndi að fá málið fellt niður í febrúar, án árangurs. Girona tjáði sig lítillega um leikmann sinn, Ferran Ruiz, og sagðist ganga út frá því að hann væri saklaus þar til sekt yrði sönnuð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×