Innlent

Nýtt met slegið í fjölda giftinga

Lovísa Arnardóttir skrifar
Færri gifta sig í kirkju en áður. Flestir giftu sig í fyrra hjá sýslumanni.
Færri gifta sig í kirkju en áður. Flestir giftu sig í fyrra hjá sýslumanni. Vísir/Vilhelm

Af þeim 5.546 einstaklingum sem stofnuðu til hjúskapar í þjóðskrá árið 2024 gengu 48,8 prósent í hjúskap hjá Sýslumönnum, 31,2 prósent hjá Þjóðkirkjunni, 10,3 prósent hjá öðrum trú- og lífsskoðunarfélögum og 9,7 prósent erlendis. Frá þessu er greint á vef Þjóðskrár.

Eins og árið áður giftu flestir sig hjá sýslumanni. Árið 2023 var það fyrsta þar sem fleiri giftu sig hjá sýslumanni en í Þjóðkirkjunni.

Giftingar voru töluvert fleiri í fyrra en árin áður en þær hafa verið á milli fjögur og fimm þúsund frá 2017 með undantekningu árið 2020 þegar heimsfaraldur Covid gekk sem hæst. Met var slegið í fjölda giftinga í fyrra, þegar þær voru 4.870, en fjölgaði um 676 á milli ára.

Sé litið til ólíkra landshluta má sjá að miðað við hverja þúsund íbúa gengu flestir íbúar höfuðborgarsvæðisins í hjúskap á árinu 2024, þar á eftir íbúar Suðurnesja og loks íbúar Vesturlands og Austurlands.

Á sama tíma, í fyrra, gengu 1.780 einstaklingar sem skráðir eru í Þjóðskrá frá lögskilnaði á síðasta ári. Þar af gengu 1.645 frá lögskilnaði sínum hjá sýslumanni, 105 gengu frá lögskilnaði sínum erlendis og þrjátíu fyrir dómi.

Þegar horft er á samanburð milli landshluta má sjá að miðað hverja þúsund íbúa voru flestir lögskilnaðir á Vestfjörðum árið 2024, þar á eftir Suðurnesjum og loks höfuðborgarsvæðið þriðja.

Fjöldi lögskilnaða var eins og giftingar fleiri en árið áður en þó svipaður fjöldi og árið 2023 þegar þeim fjölgaði verulega miðað við árin áður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×