Fótbolti

Læknir Maradona í réttar­salnum: Hann var mjög erfiður sjúk­lingur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Diego Maradona á HM 1986 þegar stjarna hans skein skærast.
Diego Maradona á HM 1986 þegar stjarna hans skein skærast. Getty/David Cannon

Argentínskur skurðlæknir segir að hann þurfti að hafa mikið fyrir því að sannfæra Diego Maradona um að fá nauðsynlega læknishjálp. Þetta kom fram í réttarhöldunum vegna dauða argentínsku goðsagnarinnar.

Sjö læknar eru ákærðir fyrir að hafa sýnt alvarlegt gáleysi og að þeir hafi ekki boðið Maradona upp á boðlega heimahjúkrun þegar hann var að jafna sig eftir skurðaðgerð vegna blóðtappa í heila.

Skurðlæknirinn Rodolfo Benvenuti segir að honum hafi gengið illa að sannfæra Maradona um að fara í myndatöku þar sem blóðtappinn uppgötvaðist.

„Hann var mjög erfiður sjúklingur,“ sagði Rodolfo Benvenuti og lýsti Maradona sem mjög þrjóskum manni.

Maradona lést 25. nóvember 2020 eftir að hafa fengið hjartaáfall í svefni.

Fjölskylda hans og saksóknari eru á því að það hefði verið hægt að bjarga lífi hans með betri ummönnun.

Ein af stóru ákvörðunum sem fjölskyldan gagnrýnir var að leyfa Maradona að fara fara heim til að jafna sig eftir þessa stóru og erfiðu aðgerð frekar en að hann myndi jafna sig á henni á sjúkrahúsi.

Þeir sjö sem eru ákærðir fyrir að eiga þátt í dauða Maradona eru heilaskurðlæknir, geðlæknir, sálfræðingur, umsjónarmaður, hjúkrunarfræðingur, læknir og næturhjúkrunarkona.

Diego Armando Maradona var sextugur þegar hann lést. Hann er af flestum talinn einn besti knattspyrnumaður sögunnar og fáir hafa komist hærra en sumarið 1986 þegar hann nánast upp á eigin spýtur leiddi argentínska landsliðið til heimsmeistaratitils.

Hann er líka elskaður og dáður í Napoli á Ítalíu þar sem hann fór fyrir margföldu meistaraliði borgarinnar á níunda áratugnum. Maradona er í guðatölu á báðum stöðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×