Innlent

Tveir enn á gjör­gæslu og sam­fé­lagið harmi slegið

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Þrír drengjanna eru nemendur við Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra sem er á Sauðárkróki.
Þrír drengjanna eru nemendur við Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra sem er á Sauðárkróki. Vísir

Tveir drengjanna sem slösuðust í alvarlegu bílslysi í grennd við Hofsós á föstudagskvöld eru enn á gjörgæslu. Samfélagið í Skagafirði er harmi slegið vegna málsins að sögn setts skólameistara, en boðað hefur verið til samverustundar í Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki á morgun.

Fjórir drengir á aldrinum sautján og átján ára voru í bílnum sem hafnaði utanvegar á Siglufjarðarvegi við Grafará, skammt suður af Hofsósi á föstudagskvöldið. Þeir voru allir fluttir með sjúkraflugi og þyrlu á gjörgæsludeild Landspítalans í Reykjavík. Tveir þeirra liggja enn á gjörgæslu samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Norðurlandi vestra.

Þrír piltanna eru nemendur við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki, en á morgun klukkan fimm hefur verið boðað til samverustundar í bóknámshúsi skólans. Þorkell Þorsteinsson er settur skólameistari við skólann.

„Þarna varð alvarlegt umferðarslys á föstudagskvöldinu þar sem að mörg ungmenni komu að. Þetta er til þess að gera lítið samfélag sem við búum í, og eðlilega þá snertir þetta áfall mjög marga, einkanlega jafnaldra þessara drengja sem í hlut eiga. Hugmyndin er einfaldlega að bjóða fólki að koma saman og ræða sína líðan og upplifun,“ segir Þorkell.

Fulltrúar frá félagsmálayfirvöldum í Húnavatnssýslum og í Skagafirði, barnavernd og lögreglu, auk prests, verða til staðar á fundinum. „Þetta er hugmyndin að taka saman stöðuna og hvaða lærdóm við getum væntanlega dregið af þessu og líka hitt að hreinlega bara veita hvert öðru styrk,“ Þorkell.

Hann finni fyrir mikilli samstöðu og samhugur ríki meðal fólksins á svæðinu en samfélagið sé mjög slegið slegið. „Það þekkja allir alla og þetta er virkilegt högg, þetta er áfall fyrir samfélagið. Samkenndin er mikil og fólk tekur þetta til sín.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×