Fótbolti

Suður-Ameríka vill 64 lið á HM 2030 svo enginn verði út­undan

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Argentínumenn urðu heimsmeistarar í þriðja sinn í Katar fyrir þremur árum.
Argentínumenn urðu heimsmeistarar í þriðja sinn í Katar fyrir þremur árum. getty/Alex Pantling

Knattspyrnusamband Suður-Ameríku, Comnebol, hefur lagt fram formlega tillögu um að þátttökulið á HM 2030 verði 64 talsins.

Þátttökuliðum á HM verður fjölgað úr 32 í 48 fyrir mótið í Kanada, Bandaríkjunum og Mexíkó á næsta ári.

Heimsmeistaramótið 2030 verður haldið á Spáni, Portúgal og Marokkó en fyrstu leikir mótsins fara fram í Argentínu, Paragvæ og Úrúgvæ til að fagna aldarafmæli HM. Comnebol hefur nú lagt formlega til að þátttökuliðin á HM 2030 verði 64.

„Þetta gefur öllum þjóðum tækifæri til að upplifa HM svo enginn verði útundan,“ sagði Alejandro Dominguez, forseti Comnebol. „Við erum viss um að aldarafmælið verði einstakt því við fögnum hundrað árum aðeins einu sinni.“

Forseti úrúgvæska knattspyrnusambandsins, Ignacio Alonso, varpaði hugmyndinni um 64 liða HM fyrst fram í síðasta mánuði.

Ekki eru allir hrifnir af því að þátttökuliðum á HM verði fjölgað í 64. Meðal þeirra sem hafa gagnrýnt þessar hugmyndir er Aleksander Ceferin, forseti UEFA.

Ef þátttökulið á HM 2030 verða 64 fjölgar leikjum á mótinu í 128. Frá HM 1998 hafa leikirnir verið 64 en þeir verða 104 á HM 2026.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×