Enski boltinn

Settu met sem enginn vill eiga

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Allt bendir til þess að Leicester City falli úr ensku úrvalsdeildinni.
Allt bendir til þess að Leicester City falli úr ensku úrvalsdeildinni. getty/Alex Pantling

Leicester City setti met sem enginn vill eiga þegar liðið tapaði 0-3 fyrir Newcastle United í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Leikurinn á King Power leikvanginum var aðeins tveggja mínútna gamall þegar Jacob Murphy kom Newcastle yfir. Hann bætti öðru marki við á 11. mínútu og Harvey Barnes skoraði svo þriðja mark gestanna á 34. mínútu. Fleiri urðu mörkin ekki og Skjórarnir fögnuðu öruggum sigri.

Leicester hefur nú tapað átta heimaleikjum í röð án þess að skora. Það hefur ekkert lið í fjórum efstu deildunum á Englandi gert.

Árangur Leicester á heimavelli á tímabilinu er vægast sagt afleitur. Liðið hefur aðeins unnið tvo af sextán deildarleikjum sínum á King Power, gert þrjú jafntefli og tapað ellefu. Leicester hefur ekki skorað á heimavelli í 720 mínútur, eða síðan 8. desember á síðasta ári.

Leicester hefur tapað fimmtán af síðustu sextán leikjum sínum og fallið blasir við Refunum. Þeir eru með sautján stig í nítjánda og næstneðsta sæti deildarinnar, fimmtán stigum frá öruggu sæti þegar sjö umferðir eru eftir.

Southampton féll á sunnudaginn og Ipswich Town er einnig í afar erfiðri stöðu, tólf stigum frá öruggu sæti. Því bendir allt til þess að allir þrír nýliðarnir falli strax aftur niður í B-deildina.

Steve Cooper var rekinn frá Leicester í lok nóvember og við starfi hans tók Ruud van Nistelrooy. Hann hefur stýrt Leicester í tuttugu deildarleikjum en í þeim hefur liðið aðeins fengið ellefu stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×