5. apríl 2025 er nefnilega stór dagur í sögu Aftureldingar í Mosfellsbæ en karlalið félagsins spilar í kvöld sinn fyrsta leik í efstu deild frá upphafi.
Það má segja að verkefni kvöldsins sé eins erfitt og þau finnast í íslenska boltanum en Mosfellsbæjarliðið er þar á útivelli á móti Íslandsmeisturum Breiðabliks.
Auðvelt er að halda því fram að þetta sé í raun erfiðasta frumraun félags í efstu deild í 36 ár þegar tekið er mið af gengi mótherjanna á árinu á undan. Síðast spilaði félag sinn fyrsta leik í efstu deild á móti ríkjandi Íslandsmeisturum árið 1989.
Fylkir var þá að leika sinn fyrsta leik í efstu deild og spilaði við Íslandsmeistara Fram á gervigrasinu í Laugardal. Fram vann leikinn þökk sé sigurmarki Guðmundar Steinssonar á tólftu mínútu.
Frá því að Fylkismenn léku sinn fyrsta efstu deildarlið fyrir 36 árum þá hafa ellefu félög verið í sömu sporum. Ekkert þeirra mætti hins vegar ríkjandi meisturum.
Gróttumenn komust næst þessu þegar þeir mættu Blikum i frumraun sinni fyrir fimm árum en Blikar enduðu í öðru sæti í deildinni sumarið á undan.
Fjögur af þessum ellefu félögum tókst að vinna sinn fyrsta leik í efstu deild frá upphafi en það voru Leiknir 2015, Fjölnir 2008, Skallagrímur 1997 og Stjarnan 1990. HK 2007 og ÍR 1998 gerðu jafntefli í sínum fyrsta leik en hin fimm liðin (Vestri 2023, Grótta 2020, Víkingur Ó. 2013, Selfoss 2010 og Grindavík 1995) töpuðu aftur á móti í frumraun sinni.
- Frumraun félaga í efstu deild karla í fótbolta síðustu áratugi:
- Afturelding 2025
- Mætir Breiðabliki (Íslandsmeistari) á útivelli í kvöld
- Vestri 2023
- Tap á móti Fram (10. sæti árið á undan) á útivelli
- Grótta 2020
- Tap á móti Breiðabliki (2. sæti) á útivelli
- Leiknir 2015
- Sigur á móti Val (5. sæti) á útivelli
- Víkingur Ó. 2013
- Tap á móti Fram (10. sæti) á heimavelli
- Selfoss 2010
- Tap á móti Fylki (3.sæti) á heimavelli
- Fjölnir 2009
- Sigur á Þrótti (10.sæti) á útivelli
- HK 2007
- Jafntefli á móti Víkingi (7.sæti) á útivelli
- ÍR 1998
- Jafntefli á móti Grindavík (7.sæti) á útivelli
- Skallagrímur 1997
- Sigur á Leiftri (3.sæti) á heimavelli
- Grindavík 1995
- Tap á móti Keflavík (3. sæti) á heimavelli
- Stjarnan 1990
- Sigur á Þór Akureyri (7. sæti) á útivelli
- Fylkir 1989
- Tap á móti Fram (Íslandsmeistari) á útivelli