Erlent

Mesta endur­nýjun vopna­búrs Sví­þjóðar frá kalda stríðinu

Kjartan Kjartansson skrifar
Efla á sænska herinn með stórauknum framlögum við endurvopnunar Svíþjóðar sem ríkisstjórn landsins kynnti í dag.
Efla á sænska herinn með stórauknum framlögum við endurvopnunar Svíþjóðar sem ríkisstjórn landsins kynnti í dag. Vísir/EPA

Sænska ríkisstjórnin tilkynnti í dag að hún ætlaði að taka þrjú hundruð milljarða sænskra að láni til þess að endurnýja vopnabúnað Svíþjóðar. Aðgerðirnar eru þær umfangsmestu frá tímum kalda stríðsins, að sögn Ulfs Kristersson, forsætisráðherra.

Fjárfestingin í hernum, sem gæti numið allt að fjögur þúsund milljörðum íslenskra króna til ársins 2035, verður fjármögnuð með nýrri lántöku. Kristersson sagði á blaðamannafundi í dag að sú leið væri farin til þess að ekki þurfi að skera niður framlög til velferðarmála eða innra öryggis.

„Þetta verður umfangsmesta endurnýjun vopnabúnaðar frá kalda stríðinu,“ sagði forsætisráðherra minnihlutastjórnar hægri flokka sem þarf að reiða sig á stuðning hægrijaðarflokksins Svíþjóðardemókrata.

Stjórn Kristersson tilkynnti einnig um frekari aðgerðir til að efla varnir Svíþjóða og styðja Úkraínu í baráttunni gegn innrás Rússlands. Viðbótarfjármagni verður varið í að verjast svonefndum blönduðum ógnum, strandgæslan fær aukið fjármagn og fjárheimildir til þess að kaupa varnartengdan búnað verða rýmkaðar.

Stuðningur Svíþjóðar verður aukinn töluvert frá því sem áður hafði verið ákveðið. Ríkisstjórnin ætlar að ráðstafa fimmtán milljörðum sænskra króna, jafnvirði um 199 milljarða íslenskra króna, af fjármálaáætlun næsta árs á þessu ári til að styðja Úkraínu frekar.

„Við verðum að gera það sem við getum til þess að styrkja frekar varnargetu Úkraínu hér og nú,“ sagði Johan Pehrson, menntamálaráðherra, á blaðamannafundinum.

Stóraukin áhersla á varnarmál í Evrópu

Evrópuríki leggja nú stóraukna áherslu á öryggis- og varnarmál, bæði vegna stríðsins í Úkraínu en einnig vegna fullyrðinga fultrúa Bandaríkjastjórnar sem benda til þess að Bandaríkin gætu að miklu leyti dregið sig út úr þátttöku í vörnum álfunnar.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins tilkynnti fyrr í þessum mánuði að auka ætti fjárfestingu í vörnum Evrópu um 800 milljarða evra fyrir lok áratugsins, meira en 115 þúsund milljarða íslenskra króna.

Varað var við því að Evrópa stæði frammi fyrir aðsteðjandi og vaxandi ógn, meðal annars af heimsvaldastefnu Vladímírs Pútín Rússlandsforseta, í hvítbók framkvæmdastjórnarinnar um varnarviðbúnað Evrópu sem var birt í síðustu viku. 

Evrópuríki þyrftu að leggja gríðarlega fjármuni í að byggja upp vopnabúr sín og heri næstu árin til þess að bæta upp fyrir áratugalanga vanfjármögnun þeirra eftir kalda stríðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×