Fótbolti

„Eru sex mörk ekki nóg til að þú haldir kjafti?“

Sindri Sverrisson skrifar
Arda Güler sussaði á Dominik Szoboszlai í sigri Tyrkja á sunnudaginn.
Arda Güler sussaði á Dominik Szoboszlai í sigri Tyrkja á sunnudaginn. Getty/David Balogh

Eftir að hafa tapað illa með Ungverjum gegn Tyrkjum í umspili um sæti í A-deild Þjóðadeildar ákvað Liverpool-stjarnan Dominik Szoboszlai samt að skjóta á hinn tvítuga Arda Güler sem nú segir Szoboszlai algjöran brandara.

Tyrkland vann einvígi þjóðanna samtals 6-1 og mun því spila í A-deildinni á næstu leiktíð Þjóðadeildarinnar, haustið 2026.

Eftir seinni leik liðanna birti ungverskur miðill mynd á Instagram af Güler að sussa á Szoboszlai og það virðist hafa farið illa í þann síðarnefnda sem kommentaði á myndina: „1088“.

Þar var Szoboszlai að vísa til takmarkaðs mínútufjölda Güler í leikjum með Evrópu- og Spánarmeisturum Real Madrid á leiktíðinni.

Güler ákvað að svara fyrir sig og skrifaði í Instagram Story: „Þessi gæi er brandari. Eru sex mörk ekki nóg til að þú haldir kjafti?“

Arda Güler birti þessa mynd og skrifaði ummæli með henni.Skjáskot/Instagram

Í viðtali við Marca segist Güler svo engan veginn vera að gefast upp á því að fá takmarkaðan spiltíma hjá Real Madrid.

„Real Madrid setti upp áætlun fyrir mig og ég trúi enn á hana. Ég er viss um að ég mun ná árangri hjá Real Madrid, ég er meira að segja búinn að kaupa hús í Madrid. Ég legg hart að mér og ég er alltaf tilbúinn að spila, eins og sást í leikjunum við Ungverjaland,“ sagði Güler sem skoraði eitt marka Tyrklands í 3-0 sigrinum í Ungverjalandi á sunnudaginn.

„Ég kom til Real Madrid til að spila og verða mikilvægur hluti af þessu liði. Ég mun ekki hætta fyrr en ég næ því,“ sagði Güler.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×