Íslenski boltinn

„Veturinn eins og best verður á kosið“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Leikmenn Aftureldingar fagna sigrinum á Keflavík í úrslitaleik umspils Lengjudeildarinnar síðasta haust.
Leikmenn Aftureldingar fagna sigrinum á Keflavík í úrslitaleik umspils Lengjudeildarinnar síðasta haust. vísir/anton

Baldur Sigurðsson, sérfræðingur Stúkunnar, telur að Afturelding geti spjarað sig vel á sínu fyrsta tímabili í Bestu deild karla.

Aftureldingu er spáð 11. sæti Bestu deildar karla í spá íþróttadeildar Vísis og Stöðvar 2. Mosfellingar leika í fyrsta sinn í efstu deild í sumar.

„Ég er nokkuð bjartsýnn fyrir þeirra hönd. Ég kíkti á þá í vetur og fékk að vera með þeim í einn dag og maður upplifði mikla stemmningu, eðlilega. Þetta er stemmningslið. Það var gaman að fylgjast með þeim á síðasta ári, þegar þeir fóru upp. Draumurinn orðinn að veruleika hjá Magga [Magnúsi Má Einarssyni, þjálfara Aftureldingar]. Hann er búinn að stefna að þessu lengi,“ sagði Baldur.

„Eins og veturinn hefur tikkað finnst mér það eins og best verður á kosið. Þeir fengu fjórmenningana; Oliver [Sigurjónsson], Axel [Óskar Andrésson], Jökul [Andrésson] og Þórð [Gunnar Hafþórsson].“

Klippa: 11. sæti Afturelding

Baldur hefur trú á því að Mosfellingar verði réttu megin við strikið í mótslok.

„Það er allt sem bendir til þess að sumarið verði gott og þá er ég að fara að meina að þeir séu ekki að fara að falla. Ég held að markmiðið geti ekkert verið hærra en það en það er spennandi sumar framundan. En ég hef pínu áhyggjur af gæðunum í hópnum. Það eru of fáir gæðatoppar í liðinu, of fáir með reynslu en ég veit að þeir eru spenntir að afsanna svoleiðis spár,“ sagði Baldur.

Afturelding sækir Íslandsmeistara Breiðabliks heim í upphafsleik Bestu deildarinnar laugardaginn 5. apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×